Peningar geta gert margt gott en þegar fólk kemst nálægt svona miklum fjármunum þá verður allt vitlaust, hvort sem er í fótbolta, einkalífi eða viðskiptum, “ segir Tómas Þór Þórðarson, íþróttafréttamaður hjá 365, í umræðuþætti Íslandsbanka, Yfirlitinu, sem að þessu sinni fjallar um fjármál í fótbolta.

Tómas Þór sagði að á meðan félögin sjálf sjái gullpott við enda regnbogans, vegna aukinna tekna vegna þátttöku landsliðsins á HM næsta sumar, verði þó að viðhalda gæðum landsliðsins sem er einmitt ástæða þess að Ísland er komið á HM. Tómas Þór benti svo á að í tengslum við umræðuna um aukna fjármuni sé ekki við hæfi að gera athugasemdir út í bónusa sem leikmenn landsliðsins fái í ljósi þess að það er vegna þeirra að milljarðar eru á leið inn í fótboltaumhverfið á Íslandi.

Þá talaði Tómas Þór um að KSÍ verði í aðdraganda þessara tekjuaukningar að vera opnari með fjármálin. Hann hrósar Guðna Bergs fyrir að ætla að gera einmitt það og segir það vera eina af ástæðum þess að hann fékk jafn glæsilega kosningu í embætti formanns KSÍ.

Farið var um víðan völl í þættinum og auk Tómasar Þórs tóku þátt í umræðum þau Edda Sif Pálsdóttir hjá RÚV, Tanja Tómasdóttir lögfræðingur og Ríkharður Daðason í landsliðsnefnd KSÍ. Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri Íslandsbanka, stýrði umræðum.

Hér má horfa á viðtalið í fullri lengd.