Heimkaup opnaði í vikunni á nýjan afhendingarmáta í samstarfi við íslenska nýsköpunarfyrirtækið Pikkoló sem gerir viðskiptavinum Heimkaupa mögulegt að sækja vörur samdægurs í kældar sjálfsafgreiðslustöðvar Pikkoló. Fyrsta stöð Pikkoló hefur nú þegar verið opnuð við Grósku í Vatnsmýrinni og á næstu vikum verður önnur stöð opnuð við Hlemm.

Meginmarkmið Pikkoló er að auðvelda neytendum að nálgast mat- og dagvörur í nærumhverfi sínu með snjallari og umhverfisvænni hætti. Þannig tengir Pikkoló verslanir á netinu við kældar Pikkoló stöðvar sem staðsettar verða í nærumhverfi fólks eins og t.d. við stærri vinnustaði, almenningssamgöngur og þétta íbúakjarna. Sjálfsafgreiðslustöðvar Pikkoló draga bæði úr losun gróðurhúsalofttegunda í dreifingu sem og að bjóða upp á aukinn sveigjanleika í afhendingu fyrir viðskiptavini sem versla mat - og dagvörur á netinu.

Mikill vöxtur hefur verið á matvöru í netsölu undanfarin ár, sérstaklega frá því í Covid-19 heimsfaraldrinum. Ef salan eykst með sama hætti hér á landi og hún hefur gert hjá nágrannalöndum okkar má ætla að heimsendingar á dag verði um 6-8 þúsund á höfuðborgarsvæðinu, sem kallar á aukna umferð á háannatíma. Með því að auka þjónustu í nærumhverfi fólks er hægt að draga úr þeirri umferð sem er hluti af markmiði samstarfsins á milli Heimkaupa og Pikkoló.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.