Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á áætlunarferðum til Vilníus í Litháen en flogið verður vikulega á laugardögum yfir sumarmánuðina. Fyrsta flugið til Vilníusar verður 25. maí næstkomandi.
Vilníus er höfuðborg Litháen en þar má finna gamlan borgarhluta sem er á heimsminjaskrá UNESCO.
„Það þarf svo sem ekki að fjölyrða um þá einstöku tengingu sem Ísland og Litháen eiga vegna sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna seint á síðustu öld. Þess vegna er gaman að geta hafið áætlunarferðir til þessarar einstöku borgar,“ segir Birgir Jónsson forstjóri Play.
Play mun fljúga til hátt í fjörutíu áfangastaða á árinu 2024, en einn af þeim nýjustu í leiðakerfi Play er Split í Króatíu.