Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á áætlunarferðum til strandborgarinnar Split í Króatíu. Fyrsta flug Play til Split verður 28. maí en flugfélagið mun fljúga þangað einu sinni í viku á þriðjudögum yfir sumarmánuðina.

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á áætlunarferðum til strandborgarinnar Split í Króatíu. Fyrsta flug Play til Split verður 28. maí en flugfélagið mun fljúga þangað einu sinni í viku á þriðjudögum yfir sumarmánuðina.

„Þetta verður í fyrsta sinn sem áætlunarferðum verður haldið úti á milli Íslands og Split og er þetta jafnframt fyrsti áfangastaður Play í Króatíu,“ segir í tilkynningu flugfélagsins.

„Við opnum árið 2024 með Split sem ég held að Íslendingar eigi eftir að taka vel í. Við viljum vera leiðandi í sólarlandaáfangastöðum og Split uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru þegar fólk vill komast í draumafríið sitt. Við bindum líka að sjálfsögðu vonir við að íbúar í Split og nágrenni borgarinnar muni nýta tækifærið til að heimsækja okkar frábæra land. Við munum bjóða samkeppnishæf verð á milli Split og Íslands og þetta er frábær valkostur fyrir þá sem vilja upplifa nýjan áfangastað sem er bæði fullur af fornum menningarverðmætum og fullkomnu veðri og á eflaust eftir að skilja eftir sig magnaðar minningar,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Floti Play telur nú 10 farþegaþotur af gerðinni Airbus A320/321neo en hátt í fjörutíu áfangastaðir tilheyra leiðakerfi flugfélagsins á árinu 2024.