Fulltrúar flugfélagsins Play hafa það sem af er viku fundað með lífeyrissjóðum með það fyrir augum að sækja sér fjármagn. Félagið stefnir jafnframt að skráningu á First-North markaðinn innan skamms. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins. Forstjóri félagsins staðfestir ekkert en segir stutt í fyrsta flug.

Forsvarsmenn félagsins vinna nú um mundir hörðum höndum að því að tryggja fjármögnun félagsins til loka árs 2022, sem munu vera um fimm milljarðar króna, að því er heimildir blaðsins herma. Þær herma jafnframt að Einar Örn Ólafsson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Skeljungs, sé meðal fjárfesta og að fulltrúar Play hafi fundað með stærstu lífeyrissjóðunum nú í vikunni. Þá muni vera stefnt að því að tilkynna um skráningu á First North markaðinn innan skamms.

Heimildir herma enn fremur að Arctica Finance, Eldjárn Capital og Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Íslandspósts og Iceland Express, séu flugfélaginu til ráðgjafar. Þá hefur Birgir verið orðaður við forstjórastól flugfélagsins.

Staðfesta ekkert en segja styttast í fyrsta flug

Play var ýtt úr vör síðari hluta árs 2019 og gerðu áætlanir ráð fyrir að á vormánuðum 2020 yrði félagið komið með fjórar vélar á loft. Líkt og með flest önnur flugfélög hefur heimsfaraldurinn sett talsvert strik í þann reikning og hefur jómfrúarferð félagsins því frestast.

Viðskiptablaðið bar fullyrðingar heimildarmanna sinna undir forsvarsmenn Play en fékk ekkert staðfest í þeim efnum. Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, segir þó í samtali við blaðið að það styttist í jómfrúarflug Play og að félagið hafi nýtt tímann vel undanfarið, augljóst sé að félagið þurfi fjármagn til að framkvæma áætlanir sínar.

„Play hefur frá stofnun félagsins átt í samtölum við fjárfesta, bæði á Íslandi og erlendis, í þeim tilgangi að koma að heildarfjármögnun félagsins svo það geti nýtt þau tækifæri sem eru framundan.

Það liggur fyrir að það styttist í fyrsta flugið hjá Play og við höfum því nýtt tímann undanfarið vel þar sem það er augljóst að við þurfum að ráða fleira fólk og fá meira fjármagn til að framkvæma okkar áætlanir," segir Arnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .