Hagnaður Regins nam 5,1 milljarði á fyrstu níu mánuðum ársins sem er 10,6% meiri hagnaður en á fyrri árs­helmingi 2022 þegar hagnaður fé­lagsins nam 4,6 milljörðum króna.

Sam­kvæmt árs­hluta­upp­gjöri voru rekstrar­tekjur fé­lagsins 10,1 milljarður á fyrstu níu mánuðum ársins og leigu­tekjur hækkuðu um 14,7% á milli ára.

„Nokkrar breytingar hafa orðið á eigna­safninu á milli ára sem hafa á­hrif á leigu­tekjur. Í kjöl­far straum­línu­lögunar eigna­safnsins hefur tekju­berandi fer­metrum og eignum fækkað á milli ára,“ segir í upp­gjöri fé­lagsins.

Hagnaður á hlut eykst

EBITDA-af­koma fé­lagsins hækkar um 13,1% á milli ára og nam 6,9 milljörðum króna. Sam­kvæmt upp­gjörinu leiðir hækkun á­hættu­lausra vaxta í septem­ber 2023 til lækkunar á virðis­mati um tæp­lega 1,4 ma.kr. á þriðja árs­fjórðungi, en virðis­mat er já­kvætt um 8,7 ma.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins.

Hand­bært fé Regins frá rekstri nam 3,8 ma.kr. og var hand­bært fé 3,8 milljarðar króna í lok tíma­bils. Vaxta­berandi skuldir voru 115,8 milljarðar í lok tíma­bils og hækkuðu um 6,7 milljarða frá ára­mótum.

Skulda­hlut­fall var 63,9% og eigin­fjár­hlut­fall 30,4% í lok tíma­bils.

Hagnaður á hlut fyrir tíma­bilið nam 2,81 kr. en var 2,54 kr. á sama tíma í fyrra.

„Rekstur fé­lagsins er í takt við upp­færða á­ætlun sem birt var í kynningu á hálfs­árs­upp­gjöri. Tekju­vöxtur er 14,7% á fyrstu níu mánuðum ársins sem jafn­gildir 5,3% raun­tekju­vexti. Út­leigu­hlut­fall er 97,5% sem er sam­bæri­legt og verið hefur. Um 45% af tekjum fé­lagsins koma frá opin­berum aðilum annars vegar og skráðum fyrir­tækjum hins vegar. Van­skil leigu­taka eru lág og mörg út­leigu­verk­efni í burðar­liðnum.

Þrjú þróunar­verk­efni fara í út­leigu á næstu misserum. Sunnu­hlíð 12 á Akur­eyri sem er nýr heilsu­tengdur þjónustu­kjarni. Eignar­hluti Regins er sam­tals um 4.700 m2 og þar af eru um 4.070 m2 af nýjum eða endur­byggðum rýmum. Nú þegar hafa um 2/3 rýmisins verið leigðir út, þar af 1.840 m2 fyrir heilsu­gæslu­stöð, 570 m2 undir sjúkra­þjálfun og 250 m2 undir lyfja­verslun. Á þriðju hæð í Smára­lind er unnið að um 3.000 m2 há­gæða skrif­stofu­rými, þar af um 1.000 m2 í fyrsta á­fanga sem til­búinn verður nú um ára­mót. Að auki eru fyrstu leigu­takar að taka við verslunar­rýmum í Smára­byggð, sam­tals um 1.850 m2 af nýjum verslunar- og þjónustu­rýmum við Sunnu- og Silfur­smára í Kópa­vogi,“ segir Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son for­stjóri í upp­gjörinu.

Virði fjár­festingar­eigna Regins að frá­dregnum leigu­eignum er metið á 181.074 milljónir króna. Sam­kvæmt upp­gjöri saman­stendur safnið nú af 100 fast­eignum sem alls eru um 373 þúsund fer­metrar.

„Út­leigu­hlut­fall er um 97,5% miðað við þær tekjur sem 100% út­leiga gæfi. Heildar­mats­breyting fyrstu níu mánuði ársins nam 8.711 m. kr. en hækkun á­hættu­lausra vaxta í septem­ber 2023 hafði nei­kvæð á­hrif á virðis­mat fjár­festingar­eigna á þriðja árs­fjórðungi.“

Fer­metra­fjöldi eigna­safns fé­lagsins hefur lækkað um 2,3% frá byrjun árs 2022 en leigu­tekjur hækka um 14,7% á fyrstu níu mánuðum þessa árs í saman­burði við sama tíma­bil árið 2022.

Eitt skilyrði af þrem fyrir yfirtökunni samþykkt

Þann 8. júní 2023 til­kynnti Reginn um á­kvörðun stjórnar fé­lagsins um að lagt yrði fram val­frjálst yfir­töku­til­boð í allt hluta­fé Eikar fast­eigna­fé­lags.

„Sam­kvæmt til­boðs­yfir­litinu, eins og því var breytt með við­auka dags 14. septem­ber, munu hlut­hafar Eikar fá 1.670.351.049 hluti í Regin eða 48,0% út­gefins hluta­fjár í kjöl­far við­skipta miðað við út­gefið hluta­fé Regins þann 13. septem­ber 2023. Til­boðs­verðið og þar með skipti­hlut­fallið (48,0%) er á­kvarðað með hlið­sjón af markaðs­virði hvors fé­lags fyrir sig miðað við dagsloka­gengi hluta­bréfa þeirra þann 12. septem­ber síðast­liðinn. Til­boðið mun taka til allra hluta í Eik sem ekki eru þegar í eigu Eikar. Fyrir á Reginn enga hluti í Eik.“

Í upp­gjörinu er greint frá því að til­boðs­frestur val­frjáls yfir­töku­til­boðs í hluta­fé Eikar fast­eigna­fé­lags hf. Samningurinn hefur verið fram­lengdur um fjórar vikur til 11. desember líkt og fram hefur komið í fjöl­miðlum.

„Til­boðið er háð skil­yrðum um (i) að hand­hafar að lág­marki 75% at­kvæðis­réttar í Eik sam­þykki val­frjálsa til­boðið, (ii) að Sam­keppnis­eftir­litið geri ekki at­huga­semd við við­skiptin eða setji við­skiptunum skil­yrði sem Reginn sættir sig ekki við og (iii) að hlut­hafa­fundur Regins sam­þykki að veita stjórn heimild til þess að hækka hluta­fé fé­lagsins til þess að efna upp­gjör á val­frjálsa til­boðinu. Með sam­þykki á hlut­hafa­fundi Regins þann 12. októ­ber síðast­liðinn hefur síðast­nefnda skil­yrðið verið upp­fyllt,“ segir í upp­gjöri fé­lagsins.