Leigu­tekjur Reita námu 15,1 milljörðum króna í fyrra sem er hækkun úr 13,5 milljörðum frá árinu áður. Rekstrar­kostnaður fjár­festingar­eigna fé­lagsins jókst einnig og fór úr 3,6 í 4,1 milljarð á milli ára.

Rekstarar­hagnaður ársins nam 20,9 milljörðum króna og næstum tvö­faldaðist á milli ára en hann nam 10,9 milljörðum árið 2022.

Heildar­hagnaður fé­lagsins jókst gríðar­lega á milli ára og fór úr 675 milljónum í 7,5 milljarða árið 2023 en það sam­svarar um 1011% aukningu á milli ára.

„Eins og áður grund­vallast stöðugur rekstur Reita á sterku og stöðugu fjár­flæði frá út­leigu til öflugra við­skipta­vina. Tekju­flæðið nýtist síðan meðal annars til fjár­festinga í þróun hús­næðis, við­halds- og endur­bóta­verk­efna, fast­eigna­kaupa og greiðslu arðs til hlut­hafa,“ segir Guð­jón Auðuns­son, frá­farandi for­stjóri Reita í upp­gjörinu.

Eigið fé fé­lagsins nam 60 milljörðum við árs­lok 2023 og voru heildar­eignir fé­lagsins metnar á 193 milljarða. Eigin­fjár­hlut­fall í lok árs var 31,2% og á meðan var skuld­setningar­hlut­fall fé­lagsins 58,9%.

„Upp­skeran af fjár­festinga­verk­efnum á árinu 2023 var mjög góð. Til dæmis skilaði fyrsta rekstrar­ár Kúmen í Kringlunni stór­auknum gesta­fjölda í húsið og Holta­garðar tóku stakka­skiptum með fimm nýjum verslunum. Stækkun vöru­húss Að­fanga um 2.700 fer­metra var liður í fram­lengdum leigu­samningi um hús­næði í Skútu­vogi til Haga og Póst­hús Foodhall í mið­bænum hefur reynst vin­sælt,“ segir Guð­jón.

Reitir greina frá því í upp­gjörinu að horfur ársins 2024 séu ó­breyttar og er gert ráð fyrir tekjum á bilinu 15.900 - 16.100 milljónum króna og rekstrar­hagnaði fyrir mats­breytingu á bilinu 10.900 - 11.100 milljónum.

For­sendur matsins eru um 6% hækkun verð­lags milli ára, að nýtingar­hlut­fall ársins 2024 verði sam­bæri­legt við nýtingu ársins 2023 og að fast­eigna­gjöld verði lægri að raun­virði.

Helstu verk­efni fé­lagsins á árinu eru upp­bygging hótels við Lauga­veg 176 og á­fram­haldandi upp­bygging 7.000 fer­metra sér­hæfðs spítala­hús­næðis við Ár­múla 7-9.

„Mikil­vægir á­fangar munu klárast í skipu­lagningu fyrsta á­fanga Kringlu­reitsins á síðari hluta árs 2024. Þá er reiknað með að gatna­gerð hefjist á næstu mánuðum í Korpu­túni, nýju 90 þúsund fer­metra at­vinnu­hverfi sem Reitir eru með í mótun á mörkum Mos­fells­bæjar og Reykja­víkur,“ segir Guð­jón.