Reitir fasteignafélag tilkynnti samhliða uppgjöri fyrsta ársfjórðungs um nýja stefnu sem stjórn og stjórnendur hafa markað. Hún er sögð hafa í för með sér aukinn vaxtarhraða félagsins á næstu fimm árum.

Reitir fasteignafélag tilkynnti samhliða uppgjöri fyrsta ársfjórðungs um nýja stefnu sem stjórn og stjórnendur hafa markað. Hún er sögð hafa í för með sér aukinn vaxtarhraða félagsins á næstu fimm árum.

Reitir hyggjast leggja ríkari áherslu á „þróunarverkefni með sjálfbærni í forgrunni og fjárfestingu í fjölbreyttari eignaflokkum þar sem sérstaklega verður horft til samfélagslegra innviða og eignaflokka þar sem þörfin er brýn“, að því er segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Fasteignafélagið stefnir að því að auka virði heildareigna í 300 milljarða innan fimm ára, þ.e. fyrir árslok 2028, en til samanburðar voru fjárfestingareignir félagsins bókfærðar á 195,7 milljarða króna í lok mars síðastliðnum.

Alls hafa verið sett fram átta mælanleg markmið sem eiga að styðja við stefnuna „og falla að áherslu á drifkraft og þekkingu, sjálfbærni, framúrskarandi rekstur, vöxt og arðsemi“.

Stefna á kolefnishlutleysi árið 2040

Í fjárfestakynningu Reita kemur m.a. fram að horft sé til þess að 10% eigna verði í nýjum eignaflokkum og að virði þróunareigna tvöfaldist á næstu fimm árum. Jafnframt stefnir fasteignafélagið á að þrefalda þjónustutekjur og lækka stjórnunarkostnaðarhlufall í 4,% yfir þetta tímabil.

Reitir kynna einnig áform um að ná kolefnishlutleysi í starfsemi félagsins fram að árinu 2040. Fasteignafélagið stefnir á að lækka kolefnislosun sína um þriðjung á fimm árum.

Þá hafa Reitir tekið upp stefnu um fjölbreytileika sem felur í sér að á hverju stigi skipurits skuli mest vera 60% af sama kyni.

Mynd tekin úr fjárfestakynningu Reita.

„Ný stefna Reita mun leiða okkur áfram á þeirri vegferð að auka vöxt með meiri áherslu á fasteignaþróun og fjárfestingu í nýjum eignarflokkum. Við viljum vera leiðandi afl í samfélaginu þegar kemur að uppbyggingu margvíslegra innviða,“ segir Guðni Aðalsteinsson, sem var nýverið ráðinn forstjóri Reita.

„Fasteignir eru mikilvægur hluti af innviðum í samfélaginu og það er gríðarlega spennandi uppbyggingar- og umbreytingarskeið í gangi á höfuðborgarsvæðinu og í raun um allt land. Við ætlum að sækja þau miklu tækifæri sem það býður okkur og auka til muna slagkraft fyrirtækisins í nýsköpun og frjórri hugsun í verkefnum sem leika mikilvæg hlutverk í gangverki samfélagsins. Grunnurinn er auðvitað sú mikla reynsla og sterka staða sem Reitir hafa.“

Gera ráð fyrir 450 íbúðum í fyrsta áfanga á Kringlusvæðinu

Reitir kynntu nýtt borgarhverfi við Kringluna á fundi Reykjavíkurborgar í Sambíóunum Kringlunni síðdegis í gær. Á sama tíma var opnuð sýning á þessum drögum að deiliskipulagstillögu fyrir almenning á jarðhæð í göngugötu Kringlunnar.

Um er að ræða drög að deiliskipulagstillögu 1. áfanga Kringlusvæðis, sem nær til lóðanna Kringlan 1-3 og Kringlan 5. Reykjavíkurborg hefur lagt fram í skipulagslýsingu áætlun um að deiliskipulagstillaga verði samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði og í borgarráði í október n.k.

Í fyrsta áfanga uppbyggingar á Kringlusvæðinu er reiknað með um 450 íbúðum auk menningarhúss og 420 bílastæða í kjallara.

„Kringlureiturinn er mikilvægt verkefni fyrir þróun borgarinnar og við erum afar stolt af okkar þætti þar enda er hann gott dæmi um hvernig vönduð uppbygging hugsuð til langs tíma getur stutt við framtíðarkröfur borgarinnar en um leið haft jákvæð áhrif fyrir þá íbúa og starfsemi sem fyrir er. Við lítum á þetta sem langhlaup en ekki spretthlaup og þetta markar því nýjan kafla í sögu Reita.“ segir Guðni.