Íslenska sprotafyrirtækið Risk ehf. og norska hugbúnaðarfyrirtækið DIPS hafa gert með sér samkomulag um að innleiða RetinaRisk áhættureikninn, sem reiknar út áhættu fólks með sykursýki á sjónskerðandi augnsjúkdómum, í sjúkraskrárkerfi DIPS sem þjónusta yfir 85% sjúklinga í Noregi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

RetinaRisk mun, með þessum samningi, vera aðgengilegt í kringum 150.000 heilbrigðisstarfsfólk á spítölum sem sinna yfir 375.000 einstaklingum með sykursýki. Félagið bindur vonir við að RetinaRisk muni auka klínískt öryggi sjúklinga til muna með því að tryggja aukna skilvirkni, betra aðgengi að augnskimun og forgangsröðun í meðferð á grunni einstaklingsbundins áhættumats.

„Sykursýki er í dag ein helst orsök blindu í fólki á vinnualdri um allan heim en koma má í veg fyrir sjónskerðinguna í yfir 90% tilvika með snemmgreiningu og viðeigandi meðferð. Retinarisk mun skipta sköpum til að auka líkur á snemmgreiningu og gera fólki kleift að bregðast við í tíma til að koma í veg fyrir sjónskerðingu og blindu.“ segir í tilkynningu frá félaginu en talið er að fjöldi fólks með sykursýki í Noregi nálgist hálfa milljón þegar nær dregur 2030.

Sjá einnig: Koma í veg fyrir sjónskerðingu.

Innleiðing RetinaRisk í DIPS var formlega tilkynnt á stórri ráðstefnu á vegum DIPS í byrjun júní þar sem starfsmenn RetinaRisk kynntu áhættureikninn fyrir 600 heilbrigðisstarfsmönnum og fólki úr tæknigeiranum. Gert er ráð fyrir að verðgildi samnings verði allt að 150 milljónir króna ár hvert þegar fram líður og markar samningurinn tímamót í útflutningi íslenskar nýsköpunar fyrir augnskimun fólks með sykursýki.

RetinaRisk teymið á DIPS ráðstefnunni - Ægir Þór Steinarsson, Stefán Einarsson

Risk ehf. var stofnað af Einari Stefánssyni, augnlækni, Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði og Örnu Guðmundsdóttur, innkirtlalækni. RetinaRisk áhættureiknirinn var þróaður með dyggum stuðningi Tækniþróunarsjóðs og innlendra fjárfesta og er sá fyrsti í röð áhættureikna fyrir sykursýki og aðra króníska sjúkdóma sem eru í þróun.