Eyþór Arnalds, fyrrum borgarfulltrúi og síðar leiðtogi Sjálfstæðismanna í Árborg, segir skuldaaukningu Reykjavíkurborgar á síðasta kjörtímabili ósjálfbæra og með sama áframhaldi endi með því að borgin verði sett í gjörgæslu. Vísar hann þar til dæmis til reynslu Reykjanesbæjar, enda geta sveitarfélög í sjálfu sér ekki orðið gjaldþrota líkt og fyrirtæki.
Eyþór er einn af fimm frambjóðendum í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík sem fram fer í dag til klukkan 18:00 eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá . Eyþór hefur komið víða við, verið í tónlist, rekið símafyrirtæki ásamt því að vera í eigin fjárfestingum og rekstri.
,,Alveg sama hvernig reksturinn er kynntur, þá er ekki hægt að hafna þeirri staðreynd að skuldir borgarsóðs hafa hækkað um einn milljarð á mánuði, núna ár eftir ár," segir Eyþór í samtali við Viðskiptablaðið, en áður hafði hann rætt við blaðið um afstöðu sína til Reykjavíkurflugvallar .
,,Á fjórum árum hafa skuldirnar farið úr 61 milljarði í 112 milljarða, sem er 80% aukning, en það er ekki hægt að sjá að eignirnar hafi aukist að sama skapi. Það er sama hvaða rekstur það er, ef skuldirnar aukast um 80% á fjórum árum í góðæri, þá er hann ósjálfbær, eða með öðrum orðum, það er hætta á að borgin geti lent í görgæslu líkt og önnur sveitarfélög hafa lent í, ef því er ekki breytt."
Fólk og fyrirtæki kikni ekki undan útgöldun vegna vaxtabyrðar
Eyþór segir að hægt væri að gera ýmislegt fyrir þá milljarða sem fara úr borgarsjóði á hverju ári vegna vaxtabyrgðarinnar, en þar skiptir gríðarlegu miklu máli að tryggja fyrirtækjum gott rekstrarumhverfi, sem og að vinnandi fólk kikni ekki undan of miklum álögum.
,,Ofan á það getur það gerst að vaxtaprósentan fari upp þegar harðnar á dalnum, því þá munu menn hafa minni trú á að Reykjavíkurborg geti borgað þessar miklu skuldir til baka," segir Eyþór.
,,Reykjavíkurborg er með allt of þungt stjórnkerfi sem gerir fyrirtækum erfitt fyrir, bæði að byggja upp og reka sín fyrirtæki. Ennfremur eru álögur alltaf að hækka, en nýjasta gjaldið, innviðagjald, mun leggjast á húsnæði ofan á að fasteignaskattar hafa hækkað. Þegar allt er saman komið, verður þetta eins og hárið sem braut bakið á kameldýrinu, og því þurfum við að breyta þessari stefnu."