„Rétt er að benda á að það er ein af grunnreglum réttarríkisins að lög séu birt, skiljanleg og fyrirsjáanleg. Það virðist hins vegar engu líkara en að ráðherra hafi einfaldlega gefist upp fyrir því verkefni og því sé bara rétt að ríkið hirði réttmætar bætur fyrir tjón sem orðið hefur vegna athafna skattayfirvalda,“ segir í sameiginlegri umsögn Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka iðnaðarins, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fjármála fyrirtækja um frumvarp til nýrra heildarlega um innheimtu opinberra skatta og gjalda.

Umrætt frumvarp liggur nú fyrir þinginu en það felur í sér lögfestingu á reglum um innheimtu skatta, gjalda og sekta. Auk þess fellur innheimtukafli tekjuskattslaganna og lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda inn í hin nýju lög. Í báðum tilfellum eru nokkrar breytingar gerðar á gildandi rétti.

Í umsögnum sem borist hafa er almennt tekið vel í þær breytingar sem til eru lagðar enda verður stjórnsýsla skattamála einfölduð og gerð skilvirkari með frumvarpinu. Frumvarpið hefur hins vegar ekki að geyma aðgerðir sem fela í sér fækkun gjalddaga og sérákvæði annarra laga á sviði skattaréttar eru ekki færð inn í frumvarpið.

„Ákvæði um vexti af skatt- og gjaldkröfum er að finna á víð og dreif um íslenska skattalöggjöf og þegar dómaframkvæmd er skoðuð virðist afar algengt að deilt sé um hvaða vaxtaákvæði eigi við í einstaka til vikum. Úr þessu hefði mátt bæta með því að færa vaxtaákvæði skattalaga í frumvarpið og setja þar einnig almenna reglu sem gildir utan tilvika einstakra skatta,“ segir í umsögn samtakanna fimm.

Í umsögninni er síðan harðlega sett út á þá grein frumvarpsins sem fjallar um endurgreiðslu opinbers fjár. Sú meginregla hefur verið við lýði að stjórnvöld skuli eiga frumkvæði að því að endurgreiða ofgreidda skatta og gjöld ásamt vöxtum. Skylda til greiðslu vaxta myndast þó ekki fyrr en 30 dögum eftir að ofgreitt var. Frá þeirri reglu er sú undantekning gerð að dráttarvexti skuli greiða frá þeim tíma er gjaldandi lagði fram kröfu um endurgreiðslu.

Ríkið ákveði tímamark dráttarvaxta

Í frumvarpinu nú er reglan útfærð ítarlega. Þrjár málsgreinar bætast við, tvær þeirra endurspegla núverandi framkvæmd en sú síðasta geymir breyttar reglur frá núgildandi réttarástandi. Gera samtökin fimm harðorðar athugasemdir við síðastnefndu tillögurnar. Þær fela í sér að dráttarvexti skuli greiða fari endurgreiðsla ekki fram innan 30 daga frá þeim degi sem inneign myndaðist eða að greiða skuli dráttarvexti frá þeim degi er inneign myndaðist til greiðsludags, fari endurgreiðsla ekki fram innan 30 daga frá því að inneign myndaðist. Inneign samkvæmt ákvæðinu miðast við þann dag sem þar til bært stjórnvald hefur úrskurðað um inneignina en ekki það tímamark er fé var oftekið.

„Ekki á lengur að miða upphafstímamark dráttarvaxta við tímasetningu ofgreiðslu af hálfu gjaldanda heldur tímamark sem álagningaraðili skatta eða gjalda ákvarðar sjálfur. Þar með er ætlunin de facto að heimila skattayfirvöldum sjálfum hvenær þau ætla að byrja að greiða dráttarvexti. [...] Verði [ákvæðið] lögfest verður staðan því sú að gjaldanda ber að greiða dráttarvexti af vangreiðslu frá gjalddaga kröfu en stjórnvöld þurfa ekki að greiða dráttarvexti af ofinnheimtum sköttum og gjöldum fyrr en frá tímamarki sem þau ákveða sjálf,“ segir í umsögninni.

Fyrirhuguð breyting er studd þeim rökum að með henni sé jafnræði gjaldenda aukið. Það er gjaldendur sem njóti sérfræðiaðstoðar, þeir sem mögulega gætu áttað sig á mistökunum fyrr, njóti ekki forskots umfram þá sem ekki hafa sérþekkingu á efninu.

„[Það er afar] nýstárleg og einkennileg afstaða að ætla sér að láta hugsanlega vanþekkingu manna á gildandi rétti ráða því að réttindi verði jöfnuð niður á við, þ.e. að þar sem ekki sé víst að allir geri sér grein fyrir réttindum sínum sé ekki rétt að þeir sem það gera njóti þeirra. Almennt hefur löggjafinn og dómstólar gert ráð fyrir því að borgararnir geri sér grein fyrir gildandi rétti og því hefur það takmarkaða þýðingu fyrir borgarann að bera því við að hann hafi ekki lesið lögin eða skilið þau!,“ segir í umsögn samtakanna. „Niðurstaðan á að verða sú að ríkið nýtur fullra bóta vegna vangreiðslu skatta og gjalda í formi dráttarvaxta frá gjalddaga en gjaldendur ekki. Það er hreint út sagt afkáraleg niðurstaða.“