Kínverski tæknirisinn Alibaba Group Holding hyggst skipta upp starfsemi sinni í sex sjálfstæðar rekstrareiningar. Um er að ræða stærstu skipulagsbreytingar í sögu fyrirtækisins.

Í tilkynningu fyrirtækisins segir að starfsemi Alibaba Group verði skipt upp í sex starfssvið: skýjaþjónustu, netverslun í Kína, netverslun á alþjóðavísu, stafræna kortagerð og matarsendingar, vörustjórnun (e. logistics) ásamt fjölmiðla- og afþreyingarsviði.

Daniel Zhang, forstjóri Alibaba Group, sagði í tölvupósti til starfsmanna að hverri einingu verði frjálst að ráðast í fjármögnun og fara á hlutabréfamarkað þegar hentar. Innlenda netverslunareiningin verði þó áfram að fullu í eigu Alibaba.

Tilkynningin var send út einungis degi eftir að stofnandinn Jack Ma sást á meginlandi Kína í fyrsta sinn í rúmt ár eftir að hafa dvalið erlendis.