Fyrirtækið Whole Oceans í Maine í Bandaríkjunum hefur ákveðið að vera með 20 þúsund tonna laxeldi uppi á landi. Fyrirtækið hefur skrifað undir kaupsamning á gamalli pappírsverksmiðju í Bucksport sýslu, skammt suður af bænum Bangor. Framkvæmdir við að breyta verksmiðjunni í laxeldisstöð hefjast í sumar og er stefnt að því að hefja eldið á næsta ári. Heildarkostnaður er áætlaður um 250 milljónir dollara. Þetta kemur fram í bandaríska blaðinu Bangor Daily News í dag.

Um síðustu mánaðamót tilkynnti norska laxeldisfyrirtækiði Nordic Aquafarms sínar áætlanir um laxeldi uppi á landi. Fyrirtækið hyggst 33 þúsund tonna laxeldisstöð við bæinn Belfast í Maine. Áætlaður kostnaður er á bilinu 450 til 500 milljónir dollara.

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Susan Collins og þingmaðurinn Bruce Poliquin hafa fagnað þessum áformum og þá sérstaklega út frá umhverfissjónarmiðum.

Hér með nálgast upplýsingar um áætlanir Nordic Aquafarms .

Laxeldi í sjókvíum hefur verið harðlega gagnrýnt, meðal annars hér á Íslandi, sem mengandi iðnaður sem hafi neikvæð áhrif á náttúruna. Með því að hafa laxeldi uppi á landi er búið að útiloka hættuna á slysasleppingum og þar af leiðandi mögulegri erfðamengun villtra laxastofna, sem og mengun vegna laxalúsar.

Heildarkostnaðurinn við laxeldisstöðvarnar tvær í Maine er á bilinu 700 til 750 milljónir dollara. Þegar stöðvarnar verða komnar í fullan rekstur þá munu þær samtals framleiða um 53 þúsund tonn á ári. Til samanburðar voru framleidd ríflega 11 þúsund tonn af laxi í sjókvíum við strendur Íslands í fyrra.

Það er ekki aðeins í Maine í Bandaríkjunum sem fyrirtæki hyggjast stunda laxeldi uppi á landi. Þessi þróun virðist vera í gangi víðar um þessar mundir, sem dæmi bárust fregnir af áformum um 20 þúsund tonna eldi í Kína í desember síðastliðnum.