Tvö sádi-arabísk flugfélög hafa lagt inn pöntun fyrir 80 Boeing 787 Dreamliner-farþegaþotum. Auki eru þau með kauprétt að 40 slíkum þotum til viðbótar.

Hið rótgróna flugfélag Saudia, sem stofnað var árið 1945, kaupir 41 þotu og Riyadh Air 39. Riyad Air er nýtt flugfélag, sem stofnað var um síðustu helgi. Wall Street Journal greinir frá því að kaupsamningarnir séu metnir á um 35 milljarða dollara eða tæplega 5 þúsund milljarða króna.

Samkvæmt heimildum Wall Street Journal hafði Boeing betur en Airbus, sem gerði sádi-arabísku félögunum einnig tilboð. Samningurinn Saudia og Riyadh Air er annar stóri samningurinn sem Boeing gerir á nokkrum mánuðum því í desember var tilkynnt um kaup United Airlines á 100 Dreamliner-farþegaþotum.