Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Róbert Wessman, Árna Harðarson og Salt Investments af skaðabótakröfu sem Björgólfur Thor Björgólfsson höfðaði gegn þeim. Björgólfur sakaði þá um að hafa á ólögmætan hátt dregið sér fjórar milljónir evra í eigin þágu og skapað honum fjártjón sem samsvarar helming af þeirri fjárhæð.

Björgólfur Thor hefur lýst því yfir að hann hyggist áfrýja dómnum til Hæstaréttar.

Sakaðir um hafa taka fjármuni traustataki

Þeir voru sakaðir um að hafa fært fjórar milljónir evra sem voru í eigu Mainsee 516 af reikningi Actavis, sem hafði fjármunina í vörslu, inn á reikning Salt Investments, án samráðs eða samþykkis stjórnar eða eigenda Mainsee 516.

Þeir Róbert og Árni hafi síðan nýtt fjármunina í eigin þágu og á sama tíma komið fjármununum frá því að vera fullnustaðir af Glitni banka, sem hafi lánað Mainsee 516 peningana til kaupa á lager af lyfjum. Björgólfur hafi þannig orðið fyrir fjártjóni vegna þess að hann hafði undirgengist sjálfskuldaraábyrgð ásamt Róberti og þurft að standa skil á hærri fjárhæð en ella, ef peningarnir hefðu ekki verið teknir „traustataki" af Róberti eins og segir í stefnunni.

Allir sýknaðir

Gagnvart Árna var því haldið fram að hann hafi ekki haft heimild í krafti stöðu sinnar til að heimila millifærsluna. Ekki var fallist á þetta m.a. vegna fyrri samskipta Árna við Mainsee og að enginn hafi dregið í efa fullt umboð hans til að fara fram á að umdeildir fjármunir yrðu fluttir af reikningi Actavis Group yfir á reikning Salt Investments.

Krafan á hendur Róbert Wessman var byggð á því að hann hafi verið eini eigandi Salt Investments auk þess að vera forstjóri Actavis Group og því útilokað að millifærslan hafi átt sér stað án hans samþykkis eða vitneskju. Engin gögn málinu eða framburðir vitna studdu þá yfirlýsingu að hann hafi komið að þessari ákvörðun með saknæmum eða ólögmætum hætti og breyti því engu hver staða hans væri í félögunum. Einnig verður það ekki virt honum til sakar að hafa ekki gripið til athafna eftir að hann fékk vitneskju um fjármunina á reikning félagsins.

Gagnvart Salt Investments var byggt á því að félagið hafi tekið við fjármununum og nýtt þá í rekstri sínum til tjóns fyrir stefnanda. Auk almennu skaðabótareglunnar var krafan reist á reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð þar sem Árni og Róbert hafi verið stjórnendur félagsins. Ekki var sýnt fram á að félagið hafi nýtt fjármunina í eigin þágu og ekki var sýnt fram á orsakatengsl milli nýtingarinnar og ætlaðs fjártjóns Björgólfs. Mainsee á ennþá kröfu á félagið sem hefur ekki verið innheimt. Hvað varðar vinnuveitendaábyrgð þá var Salt Investments einnig einnig sýknað fyrir Héraðsdómi með vísan til forsendna sýknu hjá Árna og Róberti.

Björgólfur þurfti að greiða 1,6 milljónir króna í málskostnað til Árna, Róberts og Salt Investments.