Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvogen og Alvotech, opnaði um helgina nýjan vínbar á Laugavegi 41 sem ber heitið Cernin Vínbar.
Barinn er staðsettur á fyrstu hæð á Vintage Hotel og segir á Instagram-síðu Cernin að staðurinn sé opinn á fimmtudögum, föstudögum og laugardögum.
Robert hefur ávallt haft brennandi áhuga á víni og deilir þeim áhuga með eiginkonu sinni. Eftir áralanga leit fundu þau vínekru með aðsetur í hjarta Périgord Pourpre í Frakklandi, til að framleiða hágæða vín.
Þegar N°1 Saint-Cernin Rouge kom á markað vann Maison Wessman til að mynda til verðlauna sem besti svæðisvínbóndi ársins 2018 í Bergerac og Duras. Árangurinn varð til þess að Maison Wessman stækkaði framleiðsluna og útvíkkaði til annarra svæði.
Árið 2021 festi hann svo kaup á 45 hektara vínekru í Vignoble des Verdots auk verslunarhúsnæðis í Saint-Cernin-de-Labarde í Frakklandi.