Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Rocky Road, sem stofnað er af fyrrverandi stjórnendum Plain Vanilla og Teatime, lauk á dögunum 3 milljóna dala hlutafjáraukningu eða sem nemur tæplega 410 milljónum króna. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Fjárfestingin er leidd af sænska fjárfestingasjóðnum Luminar Ventures. Íslenski vísisjóðurinn Crowberry Capital og finnski sjóðurinn Sisu Ventures, sem leiddu 330 milljóna króna fjármögnunarlotu Rocky Road í fyrra, tóku einnig þátt í nýafstöðnu hlutafjáraukningunni.

Rocky Road hefur því safnað samtals yfir 700 milljónum frá innlendum og erlendum fjárfestum frá stofnun.

Fram kemur að fjöldi englafjárfesta hafi fjárfest í Rocky Road, þar á meðal Davíð Helgason, stofnandi Unity Software, og Matthew Wilson fyrrum stjórnanda Rovio.

Vinna að gerð samfélagsleikjamiðils

Rocky Road var stofnað í byrjun síðasta árs af Þorsteini B. Friðrikssyni, Valgerði Halldórsdóttur og Sveini Davíðssyni. Leikjafyrirtækið vinnur að gerð nýs samfélagsleikjamiðils fyrir snjallsíma.

Stjórnendur fyrirtækisins segja að frumprófanir á vörunni hafi gengið fram úr björtustu vonum. Í kjölfar spennandi frumprófanna og innspýtingu á fjármagni megi gera ráð fyrir miklum vexti á komandi mánuðum.

„Við erum hæstánægð að fá inn Luminar Ventures og Crowberry Capital til að leiða sterkan fjárfestahóp í þessari hlutafjáraukningu, segir Þorsteinn B. Friðriksson, framkvæmdastjóri Rocky Road.

„Við finnum fyrir miklum meðbyr og trú á vörunni sem við höfum verið að þróa síðasta árið og þessi fjármögnum mun gera okkur kleift að stækka við teymin okkar á Íslandi, Englandi og Úkraínu.”