Tölvuleikjafyrirtækið, Savy Gaming, sem er í eigu Sádi-arabíska fjárfestingarsjóðsins Public Investment Fund (PIF) keypti 100 milljónir hluta í sænska tölvuleikjafyrirtækinu Embracer Group AB á dögunum. Sölugengi bréfanna var 103,47 sænskar krónur. Þannig er heildarvirði fjárfestingarinnar rúmlega 10 milljarðar sænskra króna sem jafngildir 137 milljörðum króna. Savy Gaming verður þá annar stærsti eigandi sænska tölvuleikjafyrirtækisins. Gengi bréfa Embracer Group AB hækkaði um 10% við tilkynninguna um kaupin. Bloomberg greindi frá.
Sjóðurinn hefur verið í mikilli sókn í tölvuleikjageiranum undanfarin ár en í síðasta mánuði keypti félagið 5,01% hlut í japanska tölvuleikjafyrirtækinu Nintendo en það var þriðja fjárfesting hans á japanska tölvuleikjamarkaðinum.
Sjá einnig: Sjóður Sádi-Arabíu kaupir í Nintendo
PIF er sjóður með meira en 500 milljarða dala í stýringu. Stjórnarformaður hans er krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman. Fyrr á þessu ári festi sjóðurinn kaup á 80% hlut í enska knattspyrnufélaginu Newcastle.