Flugfélagið Play flutti 107.236 farþega í nóvember samanborið við 75.396 farþega í nóvember 2022. Sætanýtingin í nóvember 2023 var 74,5%, samanborið við 79% í nóvember í fyrra.

„Þetta lægra hlutfall nýttra sæta er afleiðing jarðhræringa á Reykjanesskaga sem leiddu til mikillar fjölmiðlaumfjöllunar á heimsvísu þar sem leiddar voru að því líkur að mögulegt eldgos gæti truflað flug. Þessir atburðir höfðu mikil áhrif á eftirspurn eftir ferðum til Íslands sem bókaðar eru með skömmum fyrirvara,“ segir í tilkynningu Play til Kauphallarinnar.

Flugfélagið segir að þrátt fyrir samdrátt í sætanýtingu sé enn vöxtur á milli ára í einingatekjum þótt á sama tíma hafi framboð á sætiskílómetrum aukist um 54%. Þá hafi meðalhliðartekjur í nóvember hækkað um 30% milli ára.

Af þeim farþegum sem Play flutti í nóvember 2023 voru 26,2% á leið frá Íslandi, 32,7% voru á leið til Íslands og 41,2% voru tengifarþegar (VIA). Í liðnum nóvembermánuði var PLAY með stundvísi upp á 88,9%.

Það sem af er ári hefur PLAY flutt 1,4 milljónir farþega. Sætanýting á árinu er 84%. Af þeim farþegum sem PLAY hefur flutt á árinu voru 26,9% á leið frá Íslandi, 32,6% voru á leið til landsins en 40,5% voru tengifarþegar (VIA).

Metsöludagur bæti ekki upp fyrir skaðann

Play tilkynnti í síðustu viku um að jarðhræringar á Reykjanesskaga hefðu haft neikvæð áhrif á bókunarstöðu til skamms tíma og ákvað félagið því að taka afkomuspá sína fyrir árið úr gildi. Í tilkynningu Play í dag segir að ótvíræð áhrif ástandsins hafi birst sér í lagi í eftirspurn eftir ferðum til Íslands í aðdraganda jóla.

„Þegar hægðist á jarðhræringum á Reykjanesskaga mátti sjá skýr merki um að eftirspurnin hefði tekið við sér því félagið sló eigið sölumet á einum degi í síðustu vikunni í nóvember,“ segir Play og bætir við að metsöludagurinn hafi átt sér stað í kringum söludagana Black Friday, Cyber Monday og Travel Tuesday.

„Þessi aukna eftirspurn mun þó ekki ná að bæta upp þann skaða sem varð af neikvæðu áhrifunum á eftirspurnina vegna jarðhræringanna til skamms tíma.“

„Ógnarmáttur náttúrunnar á Íslandi hafði ótvíræð áhrif á sætanýtingu okkar í nóvember. Fregnir í erlendum fjölmiðum af jarðskjálftum og mögulegu eldgosi rötuðu víða. Grindavíkurbær var rýmdur með skömmum fyrirvara og Bláa lóninu, einu þekktasta kennileiti Íslands, hefur verið lokað tímabundið vegna þessarar vár. Ekki verður efast um áhrifin sem þetta hefur haft á eftirspurn eftir ferðum til Íslands. Það sést á sætanýtingu í nóvembermánuði og mun áhrifanna einnig gæta í desember,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

„Við höfum þó séð eftirspurnina taka við sér á síðustu dögum, sem er traustvekjandi fyrir komandi mánuði, en aðeins of seint til að bæta stöðuna til skamms tíma nú í aðdraganda jóla og fyrir nýja árið. Ísland er þó öruggur áfangastaður og þessar jarðhræringar hafa ekki haft áhrif á flugáætlun Play.

Svo virðist sem dregið hafi úr jarðhræringunum og við hjá Play vonumst til að það boði betri tíma fyrir Grindavíkurbæ. Margt af okkar samstarfsfólki og vinum býr þar. Okkar von er sú að þessi mál leysist sem fyrst fyrir Grindvíkinga svo þeir geti farið að horfa fram á við og að þessi frábæri bær nái aftur sínu fyrra horfi.“