Kjarasamningar um 55 þúsund opinberra starfsmanna losna á föstudaginn í næstu viku. BSRB, BHM og Kennarasamband Íslands (KÍ) ákváðu í byrjun febrúar að ganga saman til kjaraviðræðna um ákveðna meginþætti kjarasamninga.

Friðrik Jónsson, formaður BHM, á von á því að skrifað verði undir á næstu dögum en samningar þessara félaga ná til um 42 þúsund launamanna á opinberum vinnumarkaði. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verða þetta skammtímasamningar sem munu gilda í 12 til 13 mánuði.

„Við erum enn að funda og viðræðunum þokar áfram,” segir Friðrik Jónsson, formaður BHM, í samtali við Viðskiptablaðið.

Spurður hvort línurnar séu í takti við það sem samið var um á almenna vinnumarkaðnum svara hann: „Það setur okkur ákveðin viðmið eins og til dæmis að gera mögulega skammtímasamning. Þar var samið um ákveðna hluti og við horfum til þess hvernig það passar við hjá okkur. Svo erum við með önnur atriði undir eins og gamla lífeyrissamkomulagi frá 2016. Þetta er bara búið að vera verkefni."

Ég tel að við ættum að geta klárað þetta fyrir mánaðamót.

„Ég byrjaði að kalla eftir viðræðum í ágúst í fyrra og hefði viljað vera búinn að klára þetta fyrir þónokkru síðan. Nú er staðan aftur á móti sú að samningarnir renna út í lok næstu viku og ég vil vera búinn að þessu fyrir þann tíma. Ég tel að við ættum að geta klárað þetta fyrir mánaðamót.”

Heimildir blaðsins herma að skrifað verði undir skammtímasamning sem muni gilda í 12 til 13 mánuði. Er það svipað og gert var á almenna vinnumarkaðnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið.