Oddur Örnólfsson, innkaupa- og framleiðslustjóri Eldum rétt, segir að fyrirtækið fagni allri samkeppni á markaðnum og að hún hvetji starfsmenn Eldum rétt áfram í því sem það gerir.

Frá því fyrirtækið var stofnað árið 2013 hafa fjölmargir samkeppnisaðilar komið inn á markað en þar má nefna Eldabuskan, Einn, tveir og elda og Eldum gott.

„Við höfum bara bullandi trú á því sem við erum að gera og viljum bara að varan endurspegli þau gildi sem við höfum,“ segir Oddur og bætir við að markaðurinn sé stöðugt að stækka og eigi nóg inni enn.

Í mars 2022 náðu Hagar, móðurfélag Bónuss, Hagkaups og Olís, samkomulagi um kaup á öllu hlutafé Eldum rétt og tóku við rekstrinum 1. nóvember það ár. Oddur segir að samvinnan hafi verið gríðarlega skemmtileg en innan fyrirtækisins hafi þó lítið breyst.

Í nýlegri fjárfestakynningu Haga kemur fram að rekstur Eldum rétt hafi gengið vonum framar og sé í miklum vexti. Magnaukning á árinu hafi verið verulega og sjá stjórnendur Eldum rétt og Haga mikil tækifæri til frekari vaxtar á næstu misserum.

„Við erum komin í samsteypu sem hefur sömu gildi og við hvað varðar hámarksgæði og upplifun. Þau eru mjög dugleg að hvetja okkur áfram að standa vörð um þau gildi og gera betur. Innanhúss erum við samt þetta gamla teymi sem hefur verið saman í mörg ár. Við gerum sömu hlutina en erum alltaf að auka úrvalið og gera eitthvað nýtt.“

Hann segir að viðskiptavinir séu mjög ánægðir með einstöku réttina sem fást í Hagkaup og ná þeir sérstaklega vel til þeirra sem eru ef til vill hvatvísari. „Það skiptir mestu máli að fá fólk til að prufa. Fólk prufar oft réttina í Hagkaup og svo stofnar það aðgang á síðunni okkar.“

Viðskiptavinir segjast líka sáttir með að geta brotist úr ákveðinni hringrás þar sem þeir hafa kannski eldað sömu réttina aftur og aftur.

„Vöxturinn hjá okkur hefur verið svipaður og í fyrra en við erum þó búin að stækka við okkur. Við stækkuðum til dæmis framleiðslu- og kælirými okkar síðasta sumar um alveg 60%. Á þeim tíma var þetta orðið ansi þröngt en nú höfum við meira andrými til að vinna og þróa nýjungar,“ segir Oddur.