Hjá Læknafélaginu ná samningarnir sem losna 31. mars til um 1.250 lækna, sem starfa á sjúkrahúsum og í heilsugæslu. Um og yfir 90% læknanna starfa á sjúkrahúsum. Einn samningafundur hefur verið haldinn en það var þann 1. febrúar. Viðræðuáætlun hefur verið undirrituð en samt hefur ekki verið boðað til annars samningafundar.

Samningar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) losna einnig í lok næsta mánaðar. Um 93% félagsmanna Fíh, eða um 3.200 manns, starfa hjá hinu opinbera, þar af eru 63% starfandi á Landspítalanum.

Hjúkrunarfræðingar hafa farið í harðar kjaradeilur á síðustu árum án þess að samningar hafi tekist. Hefur niðurstaða kjaradeilnanna lokið með gerðardómi. Síðasti kjarasamningur sem félagið undirritaði var að loknu verkfalli árið 2014.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru kjaraviðræður hjúkrunarfræðinga rétt að hefjast. Haldinn hefur verið einn samningafundur og sá næsti er fyrirhugaður í næstu viku. Forsvarsmenn félagsins eru þessa dagana á hringferð um landið til að ræða komandi kjarasamninga. Að þeim fundum verður lögð lokahönd á kröfugerðina, sem mun taka mið af kjarakönnun, sem gerð var síðasta haust.

Samningar Sjúkraliðafélags Íslands renna einnig út í lok næsta mánaðar en þeir ná til um 2.000 sjúkraliða, sem starfa á spítölum, sem og við aðra heilbrigðis- og velferðarþjónustu hjá hinu opinbera.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast fréttaskýringuna hér.