Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur nú sett Söru Lind Guðbergsdóttur tímabundið í embætti orkumálastjóra fram til 2. júní. 2024.

Halla Hrund Logadóttir hefur að eigin ósk tekið sér tímabundið leyfi sem orkumálastjóri vegna forsetaframboðs.

Sara Lind, sem er lögfræðingur að mennt, var nú síðast settur forstjóri Ríkiskaupa en hún hefur einnig starfað hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Í nýju embætti er henni falið að fylgja eftir verkefnum sem ráðuneytið setti af stað við greiningu á starfsemi raforkueftirlits og átaksverkefni um meðferð og afgreiðslu umsókna leyfa til nýtingar auðlinda sem þegar liggja fyrir hjá Orkustofnun, að því er segir í tilkynningu.

Samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu hefur vinna við að greina starfsemi raforkueftirlitsins þegar verið sett af stað en Orkustofnun hefur ekki unnið skýrslu fyrir ráðuneytið um starfsemi raforkueftirlits vegna áranna 2021-2023.

Því liggi ekki fyrir nægjanlegar upplýsingar um framkvæmd eftirlitsins eða fjárhagslegan rekstur þess. Áhersla er lögð á að flýta þeirri greiningu til að hægt sé að byggja á henni við ákvörðun um breytingu á raforkueftirlitsgjaldi í tengslum við vinnu við fjárlagafrumvarp 2025.

Þá sé ráðuneytið að undirbúa sérstakt átaksverkefni um meðferð og afgreiðslu umsókna leyfa til nýtingar auðlinda sem þegar liggja fyrir hjá Orkustofnun. Markmið verkefnisins er að vinna kerfisbundið að því að afgreiða allar umsóknir sem teljast vera afgreiðsluhæfar og koma á eðlilegu jafnvægi á afgreiðslu leyfa miðað við fyrirliggjandi umsóknir.

Gert er ráð fyrir að verk hefjist eins fljótt og kostur er og að því verði fylgt eftir með reglulegu stöðuyfirliti frá Orkustofnun þar sem greint er frá framvindu og hvernig brugðist er við atvikum sem kunni að hafa áhrif á endanleg markmið.