Bandaríski sjónvarpsþátturinn Good Morning America á sjónvarpsstöðinni ABC fjallaði í gær um íslenska matvörufyrirtækið Good Good og vörur þess. Samtals seldi Good Good vörur fyrir 152 þúsund dali eða um 22,2 milljónir króna á aðeins nokkrum klukkustundum í netverslun Good Morning America (GMA).
Um er að ræða hluta af þættinum sem heitir „GMA – Deals and Steals for fall foddies“. Áhorfendum gast þar kostur á að versla vörur Good Good á takmörkuðum tíma með afslætti.
Í lok gærdags höfðu borist 4.758 pantanir fyrir samtals rúmlega 25 þúsund Good Good sultur, súkkulaðismjör, ketóbari, síróp og hnetusmjör í gegnum netverslun GMA.
Sjá einnig: Good Good sækir 2,6 milljarða
„Við vitum að við höfum verið að sækja í okkur veðrið í USA hvað varðar Good Good, enda 15 vinsælasta sultumerkið í Bandaríkjunum eins og er. Engu að síður kom þessi gífurlegi áhugi vegna Good Morning America okkur þægilega óvart verð ég að viðurkenna“ segir Garðar Stefánsson, forstjóri Good Good.
„Hráefnin sem við notum eru ekki ódýr, til að mynda þá notumst við 60% ber og aðeins náttúruleg sætuefni, engan sykur, í sultunum okkar. Söluverðið sem við buðum í þættinum var með 50% afslætti þ.e. hver vara á $4.99 - $5.99 og fengum við um 4.758 pantanir sem okkur þykir mikil viðurkenning á okkar vörum og einstaklega jákvæð þróun að fá þessa umfjöllun í Bandarísku sjónvarpi og að Good Good sé að höfða vel til almennings í USA.“
Í tilkynningu segir Garðar að Good Good leggi metnað í bjóða upp á sín bestu verð á Íslandi og verðleggi sig því ódýrara hér á landi en annars staðar.
„Til dæmis er meðalverð okkar á Íslandi um $3-4 útúr búð alla daga ársins, eða um $1-2 ódýrara en það sem við seldum í Good Morning America á 50% afslætti. Við erum íslensk og heimamarkaður okkar skiptir okkur máli. Við viljum því bjóða Íslendingum okkar allra bestu verð,“ segir Garðar.
Þáttastjórnendur Good Morning America ræddu um vörur Good Good frá 3:20-4:30: