Iceland Seafood International (ISI) gekk í dag frá sölu á öllu hlutafé í breska dótturfélaginu Iceland Seafood UK til danska sjávarafurðafyrirtækisins Espersen A/S, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Iceland Seafood tilkynnti í lok ágúst um samkomulag um sölu á breska dótturfélaginu til Espersen. Samkomulagið felur í sér að ISI breyti lánum til dótturfélagsins í hlutafé og leggi því jafnframt til nýtt hlutafé til að jafna út neikvæða eiginfjárstöðu og bæta fyrir rekstrartap á þriðja ársfjórðungi.

Að lokinni umræddri hlutafjáraukningu nemur bókfært eigið fé Iceland Seafood UK um 0,3 milljónir punda eða tæplega 50 milljónum króna.

Söluverð á öllu hlutafé í Iceland Seafood UK nemur 1.000 pundum eða um 167 þúsund krónum á gengi dagsins.

Neikvæð áhrif af starfsemi og sölunni á breska félaginu á afkomu ISI á árinu 2023 eru áætluð 15,5 milljónir punda eða um 2,6 milljarða króna. Þar af er rekstrartap upp á 6,6 milljónir punda á fyrstu átta mánuðum ársins, niðurfærsla á fastafjármunum upp á 7,1 milljón punda, afskriftir á birgðum upp á 1,3 milljónum punda og viðskiptakostnaður vegna sölunnar var um 0,2 milljónir punda.

Boða kröfuhafa á fund á næstu vikum

Iceland Seafood International tilkynnti einnig í dag að félagið myndi boða til fundar meðal kröfuhafa á næstu vikum til að fá samþykki fyrir breytingu eða undanþágu frá fjárhagslegum skilmálum útgáfulýsingar í skuldabréfaflokknum ICESEA 25 06. Umrætt ákvæði varðar sölu á eign sem stendur undir yfir 5% af heildarveltu samstæðunnar.

Á sunnudaginn var tilkynnt um að Bjarni Ármannsson myndi láta af störfum sem forstjóri ISI eftir að hafa gengt stöðunni í fimm ára. Ægir Páll Friðbertsson tekur við forstjórastöðunni þann 1. nóvember næstkomandi. Sjávarsýn, fjárfestingarfélag Bjarna, seldi samhliða þessu 10,8% eignarhlut sinn í ISI til Brims fyrir rúma 1,6 milljarða króna.