Um 15-20% af 71 lúxusíbúð í Austurhöfn hafa þegar verið seld eða eru í söluferli, að sögn fasteignasalans Jóns Rafns Valdimarssonar hjá fasteignasölunni Mikluborg, sem heldur utan um sölu íbúðanna. Miðað við uppsett verð eru íbúðirnar samtals metnar á um þrettán milljarða króna. Því má ætla að söluverð íbúða sem þegar hafa verið seldar eða eru í söluferli sé á bilinu 1,9 til 2,6 milljarðar króna.

Meðalfermetraverð af þeim íbúðum þar sem verð er gefið upp nemur tæplega 1,2 milljónum króna. Verð íbúða á efstu hæð hússins, svokallaðra „penthouse" íbúða, er ekki gefið upp opinberlega og því styðst Viðskiptablaðið við meðalfermetraverð á þeim íbúðum þar sem verð er gefið upp við ofangreindan útreikning.

Jón Rafn segir að salan í Austurhöfn sé á pari við væntingar fasteignasölunnar. „Þetta er, svo ég noti vinsælan covid-frasa, fordæmalaust verkefni. Það var því erfitt að áætla hvernig salan færi af stað og  við gerðum okkur grein fyrir því að það þyrftu að seljast 3-5 íbúðir til þess að boltinn færi að rúlla almennilega af stað. Eftir því sem liðið hefur á hafa mögulegir kaupendur sýnt þessu enn meiri áhuga en í byrjun."

Hann telur raunhæft að áætla að nær allar íbúðirnar hafi verið seldar fyrir árslok. „Í svona nýbyggingaverkefnum hanga stundum 2-3 íbúðir inni á sölu um nokkurt skeið en ég reikna með að við munum vera nálægt endamarkinu um næstu áramót."

Mikill áhugi frá Bandaríkjunum og Asíu

Jón Rafn líkir sölu á íbúðunum við íslenska vorið; hitastigið fari smátt og smátt hækkandi eftir því sem lengra líður. „Eftir að íbúðirnar voru auglýstar til sölu síðasta haust fórum við strax að finna fyrir talsverðum áhuga og ekki leið á löngu þar til fyrstu íbúðirnar fóru að seljast. Núna eftir áramót, og þá sérstaklega síðustu þrjá mánuði, hefur salan farið að aukast hægt og rólega. Það er því sífellt meiri þungi að færast í söluna eftir því sem líður á," segir hann og bætir við að fasteignasalar á vegum Mikluborgar séu nánast daglega niður í Austurhöfn að sýna áhugasömum kaupendum.

„Við erum vissulega að selja íbúðir í byggingum sem flokkast sem fjölbýli, en samt líður manni eins og maður sé að selja fólki sérbýli. Það er vegna þess að hver og ein íbúð er vel út af fyrir sig. Flestum íbúðum fylgir stæði í læstri bílageymslu sem aðeins íbúar Austurhafnar hafa aðgengi að og þá hafa margar íbúðanna beint aðgengi úr lyftu inn í íbúðina."

Jón Rafn segir áhugann á Austurhöfn skiptast nokkuð jafnt milli innlendra og erlendra kaupenda. „Bandaríkjamenn hafa sem dæmi sýnt íbúðunum mikinn áhuga og þrír þaðan hafa þegar gengið frá kaupum. Við höfum átt í góðu samstarfi við fasteignasölu í Boston."

Hann segir spennandi og áhugavert að sjá hve margir erlendir kaupendur hafi sýnt Austurhöfn áhuga. Áhugi hafi einnig borist frá kaupendum frá Asíulöndum, t.d. Japan. „Það virðast því margir erlendir aðilar telja íbúð í Austurhöfn vera góða fjárfestingu. Við reiknuðum alltaf með því að þetta verkefni myndi vekja áhuga út fyrir landsteinana og það hefur því verið ánægjulegt að sjá þær væntingar verða að raunveruleika."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .