Af­koma Marel hefur verið undir væntingum síðustu misseri en fé­lagið skilaði 31 milljónar evra hagnaði eftir skatta í fyrra, eða sem nemur um 4,6 milljörðum króna á gengi dagsins.

Til saman­burðar hagnaðist fé­lagið um 58,7 milljónir evra árið 2022, eða um 8,4 milljarða króna. Fyrsti árs­fjórðungur var fé­laginu einnig þungur, en Marel tapaði 3,2 milljónum evra eða næstum hálfum milljarði, á fyrstu mánuðum ársins.

Árni Sigurðs­son for­stjóri Marels segir þó mörg sóknar­færi fyrir fé­lagið til að snúa rekstrinum við en merki eru um að ytri markaðs­að­stæður séu að batna.

Spurður hvort Marel þurfi að skera niður og hvort slíkt hafi komið til tals í við­ræðum stjórna Marels og JBT, segir Árni það ekki endi­lega vera bestu leiðina ef fé­lagið ætli að sækja fram.

„Við vorum með yfir 8.500 starfs­menn en fórum niður í um 7.500 í árs­lok 2023. Við erum núna með um 7.300 starfs­menn um heim allan. Þessi fækkun er sam­hliða þessum minni um­svifum í verk­efnum en á sama tíma hafa tekjur frá þjónustu og vara­hlutum verið að vaxa mjög vel og sú á­hersla og inn­viða­fjár­festingar sem við höfum sett í það eru að skila sér,“ segir Árni.

„Eins og við höfum horft á þetta erum við stans­laust að meta hvernig ytra um­hverfið er að þróast og hvernig við stillum okkur af miðað við það. Það er á­kveðin list í þessu því ef þú skerð alveg inn að beini og markaðurinn tekur við sér getur tíminn sem það tekur að ráða nýtt starfs­fólk og þjálfa það upp o. fl. valdið því að afhendingar­tími til við­skipta­vina lengist,“ segir Árni.

Með augun á „stóru dílunum“

Í þessu sam­hengi bendir hann m. a. á að verð á korni sé byrjað að lækka og skila sér í gegnum virðis­keðjuna.

„Verð á prótíninu hefur einnig verið að þróast í rétta átt. Birgða­staðan í kerfinu eins og t. d. í kjúk­lingnum í Banda­ríkjunum er að lækka, en allt hefur þetta á­hrif á getu og vilja við­skipta­vina okkar til að fjár­festa í stærri verk­efnum.“

Spurður hvernig hann sjái fyrir sér að sækja fram þegar ytra um­hverfið nái meira jafn­vægi, sér í lagi að stækka pantana­bókina, segir Árni Marel vera með þó nokkur tæki­færi í höndunum.

„Það sem við höfum verið að gera innan­húss er að auka á­hersluna á að greina hvar stærstu tæki­færin séu. Það er topp­listi hjá mis­munandi einingum í fyrir­tækinu þannig að for­gangs­röðunin er mjög skýr,“ segir Árni.

„Við fylgjumst alltaf mjög vel með stóru verk­efnunum. Við erum mjög sterkt vöru­merki í bransanum og með traust lang­tíma­sam­bönd þannig að við heyrum alveg af „stóru dílunum“ og bjóðum í þau verk­efni. Við erum einnig að setja enn meiri á­herslu á stöðluðu vörurnar, sem eru sölur á bilinu 30 þúsund evrur upp í 400 þúsund evrur, en „stóru dílarnir“ eru taldir í milljónum evra og Costco-verk­efnið var í tugum milljóna sem dæmi,“ segir Árni.

Tækifæri til að umbylta kjúklingavinnslu

Hann bindur einnig miklar vonir við nýja lausn Marels í Banda­ríkjunum sem geti veru­lega hraðað kjúk­linga­fram­leiðslu við­skipta­vina Marels.

„Þetta gerir við­skipta­vinum okkar kleift að auka hraðann á línunni í kjúk­lingi en Marel er með einka­leyfi á lausninni og enginn. Við erum að ná að auka hraðann um 50-100%, fer eftir verk­smiðjum, og auka þannig af­köstin tölu­vert. En þetta er lykil­stef í sam­tölum við við­skipta­vini okkar, það eru allir að leita leiða til að auka af­köst og ná fram hag­ræðingu í rekstri og ekki síst skila vöru í hærri gæða­flokki sem var fram­leidd með sjálf­bærum hætti og geta verð­lagt hana eftir því.“

Árni segir lausnina eiga mögu­leika á að um­bylta markaðnum í Banda­ríkjunum, sem er alltaf að verða stærri hluti af tekjum Marels, en um 30% af allri sölu fé­lagsins koma þaðan núna.

„Við teljum að það séu mjög mikil tæki­færi í að um­bylta kjúk­linga­vinnslu með þessari tækni,“ segir Árni.

Spurður hvort mögu­leikar Marels til að sækja fram á Banda­ríkja­markað séu meiri ef af sam­runa Marels og JBT verði segist Árni sjá tæki­færi í sam­runanum.

„Það er mikil sam­legð í vöru­fram­boði fyrir­tækjanna, t. d. eru staðir í virðis­keðjunni þar sem við erum mjög sterk, en JBT er ekki með mikið vöru­fram­boð, þannig að það eru tæki­færi til að vinna vel saman.

„Í þeim hluta af virðis­keðjunni sem við köllum frekari vinnslu, sem væri svona týpísk lína sem býr annað­hvort til ham­borgara eða kjúk­linganagga, sjáum við tæki­færi til að sækja betur fram með sam­einað vöru­fram­boð til nú­verandi við­skipta­vina og ná þannig fram sölum sem fé­lögin hefðu ekki náð hvort um sig.“

Eins hefur JBT verið að ein­blína á fleiri enda­markaði og er sem dæmi líka í drykkjar­föngum. Lykil­markaðir Marela, kjúk­lingur, kjöt, fiskur, plöntu­prótein og fóður fyrir gælu­dýr og fisk­eldi, eru sem dæmi að­eins um 40% af tekjum JBT. Segir Árni fé­lögin vera að greina og skoða þessa þætti núna.