Kólumbíska poppstjarnan Shakira hefur náð samkomulagi við spænska saksóknara í stórfelldu skattsvikamáli. Söngkonan mun greiða 7,5 milljóna evra sekt en saksóknarar höfðu farið fram á átta ára fangelsisdóm og 23,8 milljóna evra sekt ef hún hefði verið dæmd.

Dómstóll í Barcelona hefur sakað hana um skattsvik sem nemur 14,5 milljónum evra en söngkonan hefur ítrekað neitað sök í málinu og var ákvörðunin um sáttarmeðferð tekin með velferð barna hennar að leiðarljósi.

„Í gegnum allan minn feril hef ég alltaf reynt að gera það sem er rétt og vera jákvætt fordæmi fyrir aðra. Því miður, og þrátt fyrir þessa viðleitni, höfðuðu skattayfirvöld á Spáni mál gegn mér eins og þau hafa gert við marga íþróttaleikmenn og fræga einstaklinga og tæmt orku, tíma og ró þessa fólks í mörg ár,“ segir Shakira í yfirlýsingu.

Mál Shakiru tengist búsetustöðu hennar en saksóknarar halda því fram að milli 2012 og 2014 hafi söngkonan búið á Spáni en verið með skráð lögheimili annars staðar. Samkvæmt spænskum lögum er fólk sem dvelur lengur en sex mánuði í landinu talið heimilisfast í skattlegum tilgangi.

Í júlí sögðu saksóknarar að Shakira hafi keypt hús í Barcelona árið 2012 sem varð fjölskylduheimili fyrir bæði hana og knattspyrnuleikmanninn Gerard Piqué. Söngkonan segir hins vegar að Spánn hafi ekki verið aðalheimili hennar á þessum tíma og að megnið af tekjum hennar hafi komið frá alþjóðlegum tónleikum og að hún hafi varið stórum hluta af tíma sínum í öðrum löndum.