Síldar­vinnslan hefur gengið frá kaupum á helmings­hlut í sölu­fyrir­tækinu Ice Fresh Sea­food. Þetta kemur fram í Kaup­hallar­til­kynningu fé­lagsins en með því lýkur við­ræðum sem fyrst var til­kynnt um í lok mars á þessu ári.

Verð­mæti Ice Fresh Sea­food í við­skiptunum er metið 42,9 milljónir evra sem jafn­gildir 1,76 sinnum bók­fært virði eigin fjár þess hinn 31. desember 2022.

Viðskiptin felast í sér að Síldarvinnslan kaupir nú­verandi hluti Sam­herja fyrir 10,7 milljónir evra, sem sam­svarar rúm­lega 1,5 milljörðum króna, og hins vegar út­gáfu nýs hluta­fjár í Ice Fresh Sea­food að fjár­hæð 21,5 milljónir evra.

Heildarvirði Ice Fresh Seafood eftir hlutafjáraukninguna verður 64,4 milljónir evra sem samsvarar 9,3 milljörðum króna og fjárfesting Síldarvinnslunar nemur 32,2 milljónum evra sem samsvarar rúmlega 4,6 milljörðum króna.

Sam­herja er eig­andi að 30,06% hlut í Síldar­vinnslunni og Þor­steinn Már Bald­vins­son, stjórnar­for­maður Síldar­vinnslunnar, er jafn­framt for­stjóri Sam­herja.

Samkvæmt tilkynningu félagsins vék Þorsteinn Már úr stjórn Síldar­vinnslunnar hf. við með­ferð málsins og kom ekki að á­kvörðunar­töku vegna þess.

Kaupa einnig fjögur erlend félög

Sam­hliða þessum við­skiptum mun Ice Fresh Sea­food ganga frá kaupum á eignar­hlutum í er­lendum sölu­fé­lögum sem fyrir­tækið hefur átt í far­sælu við­skipta­sam­bandi við undan­farin ár.

Um er að ræða helmings­hlut í Sea­gold Ltd. í Bret­landi, 100% eignar­hlut í Ice Fresh Sea­food SAS í Frakk­landi, 67% hluta­fjár í Ice Fresh Sea­food Spain S.L. og helmings­hlut í Aqu­anor Marketing Inc. í Banda­ríkjunum fyrir sam­tals 13,9 milljónir evra sem samsvarar rúmlega tveimur milljörðum króna

Verð­mæti fé­laganna fjögurra í þessum við­skiptum er 1,37 sinnum bók­fært virði eigin fjár þeirra í árs­lok 2022.

Fé­lögin voru áður hluti af sam­stæðu Sam­herja Holding ehf. og unnið hefur verið að við­skiptunum frá því í lok árs 2022.

Þá mun Ice Fresh Sea­food ganga frá kaupum á helmings­hlut í sölu­fé­laginu Cabo Norte S.A. á Spáni af Síldar­vinnslunni fyrir 4,9 milljónir evra.

Virði hlutarins byggir á því að verð­mæti Cabo Norte S.A. sé 1,3 sinnum bók­fært virði eigin fjár fé­lagsins í lok árs 2022.

Saman­lögð velta að teknu til­liti til sölu milli fé­laga var 485 milljónir evra.

Saman­lögð EBITDA fé­laganna var 6,7 milljónir evra og var leið­rétt fyrir ein­skiptis kostnaði hjá Ice Fresh Sea­food vegna stríðsins í Úkraínu.

Síldar­vinnslan segir fjár­festinguna í sam­ræmi við þá stefnu að grípa þau vaxtar­tæki­færi sem bjóðast og stuðla að aukinni á­hættu­dreifingu og arð­semi í rekstri.

„Ice Fresh Sea­food er sölu­fyrir­tæki sem býr yfir margra ára reynslu og sér­þekkingu við sölu- og markaðs­setningu sjávar­af­urða. Gústaf Bald­vins­son er fram­kvæmda­stjóri Ice Fresh Sea­food og hefur gegnt því starfi frá stofnun fyrir­tækisins í janúar 2007. Sölu­net fyrir­tækisins nær til yfir 60 landa og á bak við það er ára­tuga þekking og við­skipta­sam­bönd á helstu mörkuðum fyrir ís­lenskt sjávar­fang.“

Gunn­þór Ingva­son, for­stjóri Síldar­vinnslunnar, mun greina nánar frá við­skiptunum á fjár­festa­kynningu í kjöl­far birtingar upp­gjörs þriðja árs­fjórðungs 2023, sem er á­ætlað 23. nóvember næst­komandi.

Gústaf Bald­vins­son, fram­kvæmda­stjóri Ice Fresh Sea­food:

„Síldar­vinnslan hefur verið leiðandi fram­leiðandi upp­sjávar­af­urða á Ís­landi í ára­tugi. Við hjá Ice Fresh Sea­food höfum byggt upp sterk tengsl við fyrir­tækið á undan­förnum árum með sölu á hluta af­urða þess. Með kaupum Síldar­vinnslunnar á Vísi hf. í Grinda­vík varð Síldar­vinnslan jafn­framt stór fram­leiðandi bol­fiska­furða. Sam­band okkar við Vísi hf. nær enn lengra aftur enda höfum við séð um sölu á hluta af­urða fyrir­tækisins í mörg ár. Við þessi við­skipti öðlast Ice Fresh Sea­food á­kveðna sér­stöðu með aukinni að­komu að sölu bæði ís­lenskra bol­fisk- og upp­sjávar­af­urða. Það skapar spennandi á­skoranir sem við hlökkum til að takast á við, “

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar:

„Fjár­festing í Ice Fresh Sea­food er gerð í því skyni að styrkja sölu- og markaðs­mál fé­lagsins og er rök­rétt fram­hald af þróun sem hefur átt sér stað innan Síldar­vinnslunnar hf. á undan­förnum árum og birtist meðal annars í kaupum á Vísi hf. í Grinda­vík á síðasta ári. Ice Fresh Sea­food hefur í mörg ár verið leiðandi í sölu- og markaðs­setningu ís­lenskra sjávar­af­urða. Með þessum við­skiptum er Síldar­vinnslan að komast lengra í virðis­keðju sjávar­út­vegs og nær neyt­endum þeirra af­urða sem við fram­leiðum. Í því felast á­kveðin sóknar­tæki­færi.“