Singapore Airlines hefur skilað methagnaði á þessu ári í kjölfar aukinnar eftirspurnar á flugferðum hjá félaginu. Hreinn hagnaður flugfélagsins jókst um 24% samkvæmt WSJ á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Þá námu tekjur þess 14 milljörðum dala, sem er 7% hækkun og jókst einnig rekstrarhagnaður um 1,3% vegna lækkunar á eldsneytiskostnaði.

Fyrirtækið segir að hagnaðaraukningin sé vegna eftirspurnar eftir flugferðum til og frá Kína, Hong Kong, Japan og Taívan eftir heimsfaraldur. Ferðalög víða um heim hafa verið að jafna sig eftir Covid og náði farþegafjöldi á Changi-flugvellinum í Singapúr loks svipuðum tölum og árið 2019.

Farþegatölur Singapore Airlines jukust einnig um 27% milli ára og var sætanýting 88% að sögn flugfélagsins.

„Flugiðnaðurinn heldur áfram að standa frammi fyrir áskorunum, þá á meðal vaxandi stjórnamálaspennu, óvissu og takmörkunum á aðfangakeðju og mikilli verðbólgu. Hins vegar er eftirspurn eftir flugferðum góð,“ segir í tilkynningu frá flugfélaginu.