Verð á sjávarafurðum hækkaði um 2,1% í verði í janúar mælt í erlendri mynt, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Afurðaverðið er sögulega hátt, mælt í erlendri mynt og er nú 6% hærra en það var í janúar í fyrra. Hækkunin kemur sér vel fyrir íslensku sjávarútvegsfyrirtækin því rekstrarumhverfið hefur verið mjög óhagstætt vegna sterkrar krónu og hás olíuverði.

Afurðaverð í janúar mælt í íslenskum krónum lækkaði um 0,1% frá mánuðinum á undan vegna styrkingar krónunnar. Afurðaverð í íslenskum krónum hefur lækkað um 0,8% síðastliðið ár, segir greiningardeildin.

Gengishækkun krónunnar hefur því étið upp hækkun afurðaverðs á mörkuðum erlendis.

Sjávarútvegsfyrirtækin hafa ekki notið hækkunar á afurðaverði. Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna ætti að vænkast verulega í byrjun næsta árs ef spá greiningardeildar Íslandsbanka um gengi krónunnar gengur eftir.

Sjófrystar botnfiskafurðir eru 22,9% verðmeiri en í janúar í fyrra. Landfrystar botnfiskafurðir hækkuðu um 1% í janúar og er verðið 7,1% hærra en fyrir ári síðan.

Mjöl hækkaði um 1,1% á milli mánaða og stendur hátt miðað við fyrri ár.

Gengisvísitala krónunnar á fyrsta fjórðungi 2007 verður samkvæmt spánni 120 stig að meðaltali. Það jafngildir 9% veikingu.