Nýr kjarasamningur á milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) verður undirritaður í dag í húsnæði Ríkissáttasemjara. Samningar á milli aðila hafa verið lausir frá árinu 2019 og var nýr kjarasamningur felldur í atkvæðagreiðslu sjómanna á síðasta ári.

Samningaviðræður um nýjan samning hafa staðið yfir síðustu mánuði. Samkvæmt tilkynningu var lögð mikil áhersla á að taka tillit til þeirra athugasemda og gagnrýni sem fram kom í umræðum um samninginn á síðasta ári og hefur það gengið eftir í helstu atriðum.

„Við erum núna í þeirri stöðu að vera með kjarasamning í höndunum sem við undirritum og fer í kynningu og í atkvæðagreiðslu í framhaldinu hjá sjómönnum innan okkar félaga. Að mínu mati er þetta góður samningur og við höfum náð að semja um flest þau atriði sem gagnrýnd voru í samningnum sem var felldur í fyrra. Núna eru sjómenn í góðri stöðu til að samþykkja samning sem verður með binditíma í 5 ár og ég vonast eftir því að samningurinn verði samþykktur,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins.

Grundvallarbreyting á samningnum er binditími hans en hann verður styttur úr 10 árum í 5 ár. Það felur í sér að sjómenn geta sagt samningnum upp eftir 5 ár og svo aftur eftir 7 ár. Sjómenn munu einnig fá 400.000 króna eingreiðslu frá útgerðarfyrirtækjum ef samningur verður samþykktur.

Að lokinni undirritun verða samningarnir kynntir ítarlega fyrir félagsmönnum og að því loknu hefst rafræn atkvæðagreiðsla mánudaginn 12. febrúar kl. 12:00 og lýkur föstudaginn 16. febrúar kl. 15:00.