Sjóvá hagnaðist um 421 milljón króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 635 milljóna hagnað á sama tímabili á síðasta ári. Samsett hlutfall á fyrsta fjórðungi lækkaði úr 101,3% í 97,0% á milli ára.

Tekjur af vátryggingasamningum jukust um 10,1% samanborið við sama tímabil í fyrra og námu 8,1 milljarði króna. Afkoma af vátryggingasamningum var jákvæð um 242 milljónir á fyrsta fjórðungi þessa árs en til samanburðar var hún neikvæð um 95 milljónir á sama tíma í fyrra.

Neikvæð virðisbreyting á Controlant

Afkoma fjárfestinga lækkaði um 12% milli ára og nam 703 milljónum króna á fjórðungnum. Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, segir að afkoma af fjárfestingarstarfsemi sé ásættanleg í ljósi markaðsaðstæðna en miklar sveiflur hafa verið á eignamörkuðum það sem af er ári.

Ríkisskuldabréf og önnur skuldabréf skiluðu jákvæðri ávöxtun á fjórðungnum en skráð og óskráð hlutabréf neikvæðri ávöxtun. Ávöxtun skráðra hlutabréfa var neikvæð um 1,1%, ríkisskuldabréfa jákvæð um 2,6% og safnsins alls jákvæð um 1,2%. Í lok fyrsta fjórðungs nam stærð eignasafnsins 56,6 milljörðum króna.

Óskráð hlutabréf í eignasafni Sjóvár voru bókfærð á 3.138 milljónir í lok mars, eða um 109 milljónum minna en í árslok 2023. Í fjárfestakynningu Sjóvár kemur fram að neikvæð afkoma óskráðra hlutabréfa skýrist af neikvæðri virðisbreytingu á Controlant sem nemur 125 milljónum króna, eða úr 875 milljónum í 750 milljónir.

10 ár í Kauphöllinni

Í fjárfestakynningunni er fagnað því að 10 ár eru liðin frá því að Sjóvá var tekið til viðskipta á aðallista kauphallarinnar í kjölfar almenns hlutafjárútboðs í mars 2014. Markaðsvirði félagsins hafi rúmlega tvöfaldast frá skráningu og félagið sannað sig sem öflugt arðgreiðslufélag.

„Frá skráningu hefur Sjóvá orðið að stærsta vátryggingafélagi landsins, skilað jákvæðri afkomu af vátryggingasamningum á hverju ári og ánægja viðskiptavina hefur aukist en Sjóvá hefur verið efst fjármálafyrirtækja í Íslensku ánægjuvoginni síðastliðin 7 ár,“ segir Hermann Björnsson.

„Þá hefur félagið reynst afar arðbært fyrir eigendur með hagfelldri þróun hlutabréfaverðs félagsins ásamt reglulegum greiðslum til hluthafa.“

Glæra úr fjárfestakynningu Sjóvár fyrir fyrsta ársfjórðung.