Seðlabanki Íslands, fyrir hönd Lánamála ríkisins, hefur skráð rafrænt víxil hjá Verðbréfamiðstöð Íslands. Víxillinn er skráður í Kauphöll Nasdaq á Íslandi en fyrsti viðskiptadagur var 1. júní síðastliðinn. Þá hefur Landsbankinn jafnframt gert aðildarsamning við Verðbréfamiðstöð Íslands (VBM) sem fagnar tíðindunum.
„Þetta eru hvoru tveggja mjög mikilvægir áfangar fyrir félagið og eykur nauðsynlega samkeppni á þessum hluta innviða fjármálamarkaðar,“ segir í tilkynningu. „Þetta er enn eitt skrefið í uppbyggingu Verðbréfamiðstöðvar Íslands og skapar þannig forsendur fyrir samkeppni á markaði sem hingað til hefur verið einokun á í um 20 ár.“
Þátttakendur í verðbréfauppgjörskerfi VBM eru nú Seðlabanki Íslands, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn sem geta sent inn viðskiptafyrirmæli með rafræn verðbréf til uppgjörs, auk þess að stofna reikninga fyrir viðskiptavini sína til vörslu rafbréfa.
Verðbréfamiðstöð Íslands gegnir hlutverki sem þjónustuaðili útgefenda og fjárfesta sem umsjónaraðili rafbréfa. Við útgáfu rafbréfa í kerfi VBM verður útgefandi aðili að rafrænni miðlun til fjárfesta. Réttindi eigenda eru varðveitt rafrænt og staðfesting um eignarhald og réttindi liggur því ávallt fyrir.
Verðbréfamiðstöð Íslands er hlutafélag í eigu innlendra fagfjárfesta m.a. lífeyrissjóða og banka. Undirbúningur að stofnun félagsins hófst árið 2015 en hugmyndin með VBM var að hefja samkeppni við Nasdaq á Íslandi.