Samkeppniseftirlitið birti í dag ákvörðun þar sem kaup Ljósleiðarans ehf., dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, á stofnneti Sýnar hf. voru samþykkt án skilyrða. Með því var síðasta fyrirvara í samningi félaganna aflétt. Upprunalega var greint frá viðræðum milli félaganna í september 2022 og var kaupsamningur undirritaður í desember sama ár. Kaupverðið nam þremur milljörðum króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ljósleiðaranum en þar segir að samhliða kaupsamningi hafi verið gerður þjónustusamningur milli félaganna til tólf ára um heildsöluaðgang og þjónustu yfir burðar- og aðgangsnet Ljósleiðarans, sem og þjónustu um nettengingar til útlanda.

Samkeppniseftirlitið birti í dag ákvörðun þar sem kaup Ljósleiðarans ehf., dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, á stofnneti Sýnar hf. voru samþykkt án skilyrða. Með því var síðasta fyrirvara í samningi félaganna aflétt. Upprunalega var greint frá viðræðum milli félaganna í september 2022 og var kaupsamningur undirritaður í desember sama ár. Kaupverðið nam þremur milljörðum króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ljósleiðaranum en þar segir að samhliða kaupsamningi hafi verið gerður þjónustusamningur milli félaganna til tólf ára um heildsöluaðgang og þjónustu yfir burðar- og aðgangsnet Ljósleiðarans, sem og þjónustu um nettengingar til útlanda.

„Þetta er stór áfangi í löngu ferli og nú fögnum við nýjum vinnufélögum sem fylgja rekstri stofnnets Sýnar yfir til okkar Ljósleiðarafólks. Líkt og við tvinnum netið sem við erum að kaupa saman við okkar, hlakka ég til að efla þjónustu okkar enn frekar í samstarfi við þann góða liðsstyrk,“ segir Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.

Í tilkynningu frá Sýn kemur fram að gert sé ráð fyrir að viðskiptin hafi jákvæð áhrif á rekstrarkostnað Sýnar um 100 milljónir króna nettó á ári auk þess sem árleg fjárfestingaþörf lækkar í kringum 120 milljónir króna yfir samningstímann.

Fyrsti hluti kaupverðsins verður greiddur við afhendingu og eftirstöðvar greiðast í áföngum á næstu mánuðum. Kaupverð skal að fullu greitt eigi síðar en að tólf mánuðum liðnum frá gildistöku samningsins. Hinar seldu eignir eru bókfærðar á 564 m.kr. og nemur söluhagnaður því 2.436 m.kr. og mun bókfærast að fullu við afhendingu

„Það er ánægjulegt að meðhöndlun málsins hjá Samkeppniseftirlitinu er lokið og Sýn getur afhent Ljósleiðaranum okkar öfluga stofnnet sem félagið hefur byggt upp síðustu rúmlega 20 ár. Með góðum þjónustusamningi og hagstæðum kjörum tryggjum við okkur aðgang að öruggum tengingum, auknum hraða og háu þjónustustigi næstu 12 árin með áherslu á hámarks upplifun viðskiptavina,“ segir Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar.

Engin tenging milli samningsins og hlutafjárútboðs

Á hluthafafundi Ljósleiðarans fyrr í mánuðinum var samþykkt tillaga um hlutafjáraukningu, sem nemur 33,3% hlutafjár eftir hækkunina, með nýja fjárfesta. Gert var ráð fyrir að söluferli nýs hlutafjár myndi ljúka á næsta ári.

Erling Freyr Guðmundsson, sem lét af störfum sem framkvæmdastjóri Ljósleiðarans í sumar, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun árs að kaupin á stofnneti Sýnar væru fjármögnuð með bankaláni „á ágætis kjörum“ miðað við hátt vaxtastig í landinu. Engin tenging væri á milli samningsins við Sýn og áformaðs hlutafjárútboðs Ljósleiðarans.

„Við vorum að kaupa aðstöðu sem tengir hundruð senda út um allt land. Það tók Sýn tvo áratugi að byggja upp þessa aðstöðu og tengja öll þessi net saman. Það kostar tíma og peninga. Við fáum þetta frá fyrsta degi sem það verður afhent, sem er ekki fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur heimilað viðskiptin. Með kaupunum á stofnnetinu urðu sumir viðskiptasamningar Ljósleiðarans enn arðbærari en áður, auk þess sem stærra þjónustusvæði gerir okkur kleift að fjölga samningum enn frekar.“