Viðskipti með hlutabréf Sjóvá og VÍS í aðdraganda þess að tilkynnt var um tæplega 180 milljarða króna sölu á Kerecis í sumar voru tekin til skoðunar af Kauphöllinni.
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið.
„Það urðu þarna hreyfingar, en ég get ekki tjáð mig um svona mál, en get staðfest að þetta var tekið til skoðunar,“ segir Magnús en um 700 milljón króna velta var með bréf tryggingarfélaganna í aðdraganda sölunnar.
Kauphöllin sinnir eftirliti með viðskiptum á hlutabréfamarkaði en ef grunur leikur á um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað eru gögn send til fjármálaeftirlitsins til frekari rannsóknar.
Magnús vildi ekki staðfesta hvort slíkt hafi verið gert í þessu tilfelli.
Viðskiptablaðið hefur óskaði eftir svörum frá FME um hvort eftirlitið sé að rannsaka viðskipti tengdum tryggingarfélögunum í aðdraganda sölunnar.
Hækkuðu töluvert fyrir staðfestingu
Fyrstu vikuna í júlí byrjaði hávær orðrómur um risasölu á Kerecis að sveima á íslenskum fjármálamarkaði.
Töluverð hækkun átti sér stað á hlutabréfaverði Sjóvá og VÍS í Kauphöllinni þann 6. júlí en yfirtökutilboð danska heilbrigðisrisans Coloplast á Kerecis var endanlega staðfest með tilkynningu tryggingarfélaganna til Kauphallarinnar eftir lokun markaða þann dag.
Tryggingarfélögin hækkuðu hins vegar verulega þann 6. júlí en hlutabréfaverð VÍS hækkaði um 5,9% í 220 milljón króna viðskiptum á meðan gengi Sjóvár hækkaði um 4,5% í 470 milljón króna viðskiptum.
Töluverð hækkun félaganna var rakin til orðróms um söluna en Sjóvá átti 115.689 hluti sem var um 1,5% eignarhlutur í Kerecis en kaup Coloplast voru fjármögnuð með hlutabréfaútgáfu.
Samkvæmt uppgjöri mun Sjóvá bókfæra u.þ.b. 1,15 milljarða króna hagnað á þriðja ársfjórðungi 2023 vegna sölunnar.
Söluvirði hlutar VÍS í Kerecis samkvæmt ársuppgjöri fyrri árshelmings nam um 2,8 milljörðum en upphaflega fjárfestingin VÍS í Kerecis nam um 245 milljónum en VÍS átti 136.715 hluti í Kerecis.
Söluvirði á hlutum tryggingarfélaganna getur þó tekið breytingum, m. a. vegna mögulegrar viðbótargreiðslu tengdri rekstrarárangri Kerecis og gengi bandaríkjadollar þegar salan fer fram.