Bandaríska skyndibitakeðjan Burger King tilkynnti nýlega að hún myndi bjóða aftur upp á hina vinsælu 5 dala máltíð sem inniheldur hamborgara, nagga, franskar og drykk. Tilkynningin kemur stuttu eftir að McDonald‘s sagðist ætla að gera slíkt hið sama.

Neytendur í Bandaríkjunum hafa undanfarin misseri verið að draga úr ferðum sínum á skyndibitastaði í ljósi mikilla verðhækkana og kjósa nú frekar að fara annað eða borða einfaldlega heima hjá sér.

Þetta hefur skiljanlega haft áhrif á sölutölur skyndibitaveitingastaða en McDonald‘s, Taco Bell og KFC greindu öll frá minni tekjum á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Til að sporna við þessari þróun hafa fyrirtækin reynt að lækka verð á máltíðum sínum, en þó aðeins tímabundið.

McDonald‘s tilkynnti fyrr í þessum mánuði að staðurinn myndi bjóða aftur upp á fimm dala máltíðirnar. Viðskiptavinir geta valið á milli McChicken eða McDouble-hamborgara, nagga, miðstærð af frönskum og drykk.

Leyfishafar hafa þó mótmælt þessari ákvörðun þar sem þeir segja að hún muni ekki skila hagnaði og eru viðskiptavinir ósáttir með að þetta tilboð verði aðeins fáanlegt á nokkrum völdum stöðum og í stuttan tíma.

Samkeppnisaðilinn Wendy‘s mun þá einnig bjóða upp á þriggja dala morgunverðartilboð en það tilboð inniheldur val á eggi og beikoni, köku eða pylsu og litlum skammti af krydduðum kartöflum. Líkt og hjá McDonald‘s og Wendy‘s þá verður tilboðið aðeins í stuttan tíma og til klukkan hálf ellefu á morgnana.