Sam­dráttur varð að raun­virði á korta­veltu inn­lendra greiðslu­korta í mars frá sama mánuði í fyrra.

Korta­velta nam um 113 milljörðum króna og jókst um 1,1% í krónum talið en þegar leið­rétt er fyrir þróun verð­lags og gengi krónu nam sam­dráttur korta­veltunnar í heild sinni 1,4% milli ára, sam­kvæmt greiningar­deild Ís­lands­banka.

„Sam­dráttur korta­veltu innan­lands nam 3,8% að raun­virði en er­lendis jókst hún um 2,4% á sama mæli­kvarða. Að okkar mati er þessi þróun skýrt merki um kaldara hag­kerfi og á­hrif hárra stýri­vaxta á eftir­spurn,“ segir í greiningu bankans.

Þróunin kemur þó ekki á ó­vart þar sem páskar voru snemma þetta árið. Í raun þykir greiningar­deildinni aukningin er­lendis heldur hóf­leg nema þá að stór hluti neyslu lands­manna í páska­ferðum er­lendis muni koma fram í tölum apríl­mánaðar.

Hærri korta­velta er­lendis mun því að öllum líkindum teygja sig að hluta yfir í apríl þar sem páskar voru um mánaða­mót.

„Við­snúningur varð á þróun einka­neyslu á síðasta ári eftir hraðan vöxt árin tvö á undan. Á fyrri helmingi ársins jókst einka­neyslan en á seinni helmingi varð sam­dráttur sam­kvæmt bráða­birgða­tölum Hag­stofunnar. Á seinasta fjórðungi síðasta árs nam sam­dráttur einka­neyslu þannig 2,3%” segir í greiningu Ís­lands­banka.

Þá bendir korta­velta fyrsta fjórðungs þessa árs til sam­dráttar einka­neyslu á fjórðungnum.