Guðmundur Jóhann Jónsson hyggur á starfslok á fyrri hluta næsta árs eftir 16 ár í forstjórastóli Varðar tryggingafélags og 40 ára starfsferil í greininni, mestallan í stjórnunarstöðum.
Tryggingageirinn er tregbreytilegur að mati Guðmundar og hann sér ekki fyrir sér að tækniþróun muni valda umbyltingu hans, en tryggingafélög þurfi þó að tileinka sér nýja tækni eins og aðrir.
Eftir að hafa verið í krefjandi stjórnunarstörfum svo til alla starfsævina segist Guðmund vera farið að lengja eftir meiri frítíma og sveigjanleika.
„Ég sé ekki eftir neinu hvað starfsævina varðar, en ég hafði alltaf séð fyrir mér að taka því rólega og fara að hvíla jakkafötin á þessum aldri og fara aðeins yfir í gallabuxurnar. Það er betra að fara meðan það er snefill af eftirspurn eftir manni og maður er sjálfur tiltölulega ferskur,“ segir Guðmundur léttur.
„Ég held að þetta sé góður tímapunktur bæði fyrir mig og fyrir félagið. Fyrirtæki þurfa bara nýtt blóð stundum hvort sem það er eftir 7 ár eða 16.“
Hann er þó hvergi nærri sestur í helgan stein enda maður sem vill láta til sín taka. „Í 30 ár hef ég verið þátttakandi í stjórnum fyrirtækja sem hefur aðeins kryddað upp á tilveruna og ég er síður en svo hættur þar. Svo væri ég alveg til í það líka að taka þátt í skemmtilegum samfélagsverkefnum. Ég hef gert það í gegnum ævina og er tilbúinn að gera slíkt áfram.“
Nánar er rætt við Guðmund í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.