Frá 1960 þegar Barbie leit fyrst dagsins ljós hefur dúkkan vinsæla byggt sér upp ágætlega langa ferilskrá. Hún hefur meðal annars starfað sem geimfari og dýrafræðingur en nýjasta starfsheiti hennar var Hollywood-stjarna sem þénaði yfir 636 milljónir dala í miðasölu í Bandaríkjunum.

Samkvæmt fyrirtækinu sem framleiðir dúkkuna, Mattel, seljast meira en 100 Barbie-dúkkur á hverri mínútu í heiminum. Fréttamiðillinn Wall Street Journal ákvað að heyra í fyrirtækinu og spyrja það út í söluhæstu dúkkurnar þeirra undanfarin 64 ár eftir starfsferli.

Tíu söluhæstu dúkkurnar að sögn fyrirtækisins hafa verið:

  1. Ballerína
  2. Poppstjarna
  3. Læknir
  4. Fimleikakona
  5. Dýralæknir/bóndi
  6. Bakari/kokkur
  7. Kennari
  8. Geimfari
  9. Forstjóri/frumkvöðull
  10. Forseti

Sum af starfstitlum dúkkunnar hafa einnig komið langt á undan atburðum sem gerðust í hinum raunverulega heimi. Geimfara-Barbie var til að mynda kynnt árið 1965, löngu áður en NASA byrjaði að hleypa konum inn í geimferðir sínar.

Árið 1973 varð Barbie einnig skurðlæknir og átta árum seinna braut forstjóra-Barbie hið svokallaða glerþak í fyrirtækjaheiminum. Árið 1992 bauð svo Barbie sig fram til forseta í fyrsta skipti.

Þó svo að ballerínan sé ein vinsælasta dúkkan þá er hún ekki mest selda Barbie-dúkkan í sögunni. Sá titill rennur til dúkku sem kallast Totally Hair Barbie en hún kom á markað árið 1992 og náði hár hennar alla leið niður til fóta.