Aðkoma fyrirtækja í einkarekstri að heilbrigðiskerfinu er iðulega gagnrýnd þar sem oft er haldið fram að um einkavæðingu að ræða. Kara Connect er meðal fyrirtækja sem hafa þurft að berjast við hið opinbera árum saman en Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi heilbrigðistæknifyrirtækisins, tekur fram að málið snúist ekki um einkavæðingu heldur einkarekstur til stuðnings hins opinbera.

Með tækninni skapist ýmsir möguleikar, þar á meðal þegar kemur að forvörnum.

„Ég sakna þess svolítið að stjórnmálamenn, sérstaklega í svona breiðri ríkisstjórn, þori að ræða framtíð kerfis og það verði alltaf að tryggja ákveðna grunnþjónustu fyrir alla. Hver er hún og hvað er vont við það að þeir sem eigi tök á fari í eitthvað í forvarnaskyni eða borgi fyrir eitthvað sem þeir gera hvort eð er, þeir fara bara til útlanda,“ segir Þorbjörg Helga.

„Hér liggur hundurinn grafinn held ég vegna þess að hérna þorir enginn að segja, við ætlum ekki að gera þetta, þetta er ekki það sem Landspítalinn ætlar að gera, og svo framvegis. Rekstur Landspítalans að hluta til er háður alls konar litlum verkefnum vegna fjármögnunar sem svona skýr stefnumótun ætti að taka af skarið með svo við getum verið rosa beinskeytt í ákvörðunum.“

Opinberum lausnum haldið á lífi með plástrum

Í grunninn sé þó mikilvægt að hafa í huga að nýjar lausnir skapi ekki auka álag fyrir starfsfólk sem er þegar undir miklu álagi. Það hafi þó reynst raunin til að mynda þegar Heilsuveru, sem hið opinbera byggði sjálft, var komið á fót.

„Vegna lélegrar innleiðingar eru læknar nú á varðbergi fyrir nýjum lausnum. Fyrirtæki á markaði sem þarf að byggja lausn sem lifir og dafnar getur ekki byggt lausn sem er ekki vel innleidd og í takt við þarfir. Opinberum lausnum er hins vegar haldið á lífi með plástrum og viðbótum þó að allir séu sammála um að þetta séu löngu ónýt kerfi,“ segir Þorbjörg Helga.

„Ég hef mjög mikla samúð með álaginu á kerfinu, ég held að okkur vanti virkilega mikið af nýju fólki inn í stéttina og við eigum að fókusera rosalega stíft á það. En það má samt ekki segja að það sé eina málið, við þurfum að hugsa um svo margt, og fjárfesta í lausnum til að létta á kerfinu.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Viðskiptaþing. Hægt er að lesa greinina í heild hér.