S&P 500 úrvalsvísitalan féll um 3% í síðustu viku en vísitalan hefur nú lækkað stöðugt í þrjár vikur í röð en slíkt hefur ekki gerst síðan í mars á þessu ári.
Nasdaq vísitalan, þar sem tæknifyrirtækin vestanhafs eru þungamiðjan, hefur einnig verið á niðurleið síðustu vikur en hún féll 0,1% á föstudaginn.
Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa lækkaði einnig vestanhafs á föstudaginn eftir að hafa verið í sögulegri hæð en krafan á 10 ára ríkisskuldabréf féll úr 4,479% í 4,438% fyrir helgina.
Bandaríski seðlabankinn ákvað á miðvikudaginn að halda stýrivöxtum óbreyttum en Jerome Powell seðlabankastjóri útilokaði ekki frekari hækkanir á árinu.
Fjárfestar vestanhafs óttast að háir vextir verði raunin næsta árið og hafa margir vogunarsjóðir verið að selja hlutabréf og kaupa í peningamarkaðssjóðum og hlutabréfum.
Tæknifyrirtækin hafa verið að taka stærsta höggið samkvæmt The Wall Street Journal en hlutabréfaverð Affirm féll um 17 % í síðustu viku, Block féll um 15% og PayPal um 10%.
Á sama tíma hækkaði Ford um tæp 2% eftir að verkfallsaðgerðum var frestað á föstudaginn en bílaframleiðandinn leiddi hækkanir í S&P500 vísitölunni í síðustu viku.
Sömu sögu er að segja að á heimsvísu en Stoxx Europe 600 féll um 0,3% á föstudaginn á meðan Nikkei vísitalan í Japan féll um 0,5%.