Í erlendum fjölmiðlum undanfarin tvö ár hafa reglulega verið sagðar fréttir af því að ákveðin stórfyrirtæki hafi ákveðið að skikka starfsfólk til að snúa aftur á skrifstofurnar 3-4 daga vikunnar. Mark Dixon, stofnandi og forstjóri Regus, gefur lítið fyrir slíkar fréttir.

„Sömu fyrirtækin eru að innleiða stefnur um blandaða vinnuhætti (e. hybrid-work) og eru sífellt að verða betri í að stýra starfsfólki án þess að það sé allt statt í sömu byggingu,“ sagði Mark í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Víða erlendis er fjöldi fólks sem þarf að ferðast til og frá vinnu í 2-3 klukkutíma á dag sem er mjög dýrt og fólk vill ekki eyða tíma sínum með þeim hætti. Af hverju ekki að leyfa þeim að fara í nærliggjandi byggingu og starfa þaðan? Er það virkilega svo að starfsfólki er stýrt þeim mun betur innan skrifstofunnar?“

Margir sagt skilið við hefðbundnar skrifstofur

Mark segir að margir viðskiptavinir Regus í Bandaríkjunum hafi sagt alfarið skilið við hefðbundnar skrifstofur.

„Þau leggja í staðinn meira upp úr þjálfun og skipulögðum samkomum. Sum fyrirtæki kalla starfsmenn saman á tveggja vikna fresti til að ræða um reksturinn og viðskiptaáætlanir. Starfshópum er annars stýrt á stafrænan máta á skilvirkan hátt sem fellur vel að yngri kynslóðum.“

Henti meirihluta fyrirtækja

Mark segir þó að fjarvinna starfsmanna henti ekki öllum fyrirtækjum, líkt og í tilviki ýmissa lítilla fyrirtækja eða í skapandi iðnaði þar sem nauðsynlegt getur reynst að hafa fólk á sama stað. Hjá meirihluta fyrirtækja ætti stefna um blandaða vinnuhætti þó að gefast vel og leiða til um helmingi lægri skrifstofukostnaðar.

Sér til stuðnings bendir hann á sjálfstæða rannsókn Global Workplace Analytics þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að hefðbundið bandarískt fyrirtæki geti sparað sér árlega um 11 þúsund dali, eða yfir 1,4 milljónir króna, að meðaltali á hvern starfsmann sem er í fjarvinnu helminginn af vinnutímanum. Sparnaðurinn felst aðallega í aukinni framleiðni, lægri fasteignakostnaði, minni forföllum ásamt því að starfsmannavelta dregst saman.

Mark benti jafnframt á viðtal sem Time tók við Nicholas Bloom, hagfræðiprófessor við Stanford, þar sem kostir blandaðrar nálgunar eru betur útlistaðir. Bloom sagði m.a. að starfsmenn sem bjóðast að starfa að hluta í fjarvinnu séu ánægðari og líti á það sem ígildi 7-8% launahækkunar samkvæmt skoðanakönnunum. Rannsóknir bendi einnig til að framleiðni aukist um 3-4% sem rekja má til minni ferðatíma og að með góðu skipulagi geti fólk unnið skilvirkt í fjarvinnu, m.a. vegna minni truflana á vinnustað.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Regus í Viðskiptablaði vikunnar. Þar ræðir Mark nánar um breytta vinnuhætti og framtíð skrifstofunnar.