Samkeppniseftirlitið hóf formlega rannsókn á störfum Orku Náttúrunnar árið 2020 vegna meintra brota sem snúa að sölu, uppsetningu og þjónustu fyrirtækisins á bæði hleðslustöðvum og hleðslum fyrir rafbíla. Orka náttúrunnar er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur sem er í eigu Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar. Samkeppniseftirlitið staðfesti í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins að athuganir og rannsóknir séu enn í gangi sem tengist raforkumarkaðnum og þar á meðal athugun sem varðar Orkuveitu Reykjavíkur og tengd félög. Samkeppniseftirlitið gat ekki sagt til um hvenær eða hvernig rannsókninni lýkur, en málið sé enn þá til meðferðar.

Fram kemur í svari Samkeppniseftirlitsins að kvörtunum og ábendingum tengt háttsemi fyrirtækja á þessum mörkuðum hafi fjölgað á undanförnum misserum og að aðkoma Samkeppniseftirlitsins á raforkumarkaði muni aukast á næstunni.

„Vænta má þess að málefni raforkumarkaðar verði í brennidepli hjá Samkeppniseftirlitinu á næstunni, meðal annars vegna orkuskipta og aukinna tækifæra á því sviði. Samkeppniseftirlitið fylgist sérstaklega með vísbendingum um samkeppnishindranir sem tefja þessa þróun,“ segir í svarinu.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.