Íslenska hátæknifyrirtækið Controlant hefur á undanförnum árum sett sér markmið um að ná sem flestum af 20-30 stærstu lyfjafyrirtækjum heims í kúnnahópinn.

Controlant, sem var stofnað árið 2007, hefur þróað véla- og hugbúnaðarlausn sem veitir rauntímaupplýsingar um staðsetningu, hitastig og ástand lyfja í flutningi, sem gerir dreifingaraðilum kleift að bregðast við frávikum til að koma í veg fyrir að lyf skemmist í dreifingu.

Þegar Viðskiptablaðið ræddi við Gísla Herjólfsson, forstjóra Controlant, fyrir rúmu ári var félagið komið með samninga við sjö þeirra en í dag eru þau orðin níu.

Stefnt er að því að ná samningum við fleiri en tíu til viðbótar í ár og á næsta ári. Gangi þau markmið eftir mun markaðshlutdeild Controlant innan þessa mengis fara úr tæplega 30% í yfir 50%.

„Við finnum fyrir gífurlegri eftirspurn eftir vörunum okkar,“ segir Gísli í viðtali í Viðskiptablaði vikunnar.

„Það má segja að við höfum upplifað ákveðna stöðnun í lyfjageiranum í Covid-faraldrinum, að bóluefnunum fráskildum. Á síðasta ári komst meiri hreyfing á markaðinn og á fyrsta fjórðungi þessa árs upplifðum við ótrúlegan mun á kauphegðun hjá kjarnakúnnum okkar. Það er himinn og haf á milli ára.“

Fréttin er hluti af viðtali við Gísla í Viðskiptablaði vikunnar. Þar ræðir hann um gríðarleg vaxtartækifæri í kjarnastarfsemi Controlant og háleit markmið félagsins til framtíðar.