Fyrrverandi formenn Samtaka ferðaþjónustunnar líta yfir farinn veg og meta stöðu ferðaþjónustunnar og framtíðarhorfur í sérblaði, sem Viðskiptablaðið gaf út vegna 25 ára afmælis samtakanna.  

Árni Gunnarsson var formaður Samtaka ferðaþjónustunnar frá árinu 2008 til 2014. Hér svarar hann þremur spurningum:

Fyrrverandi formenn Samtaka ferðaþjónustunnar líta yfir farinn veg og meta stöðu ferðaþjónustunnar og framtíðarhorfur í sérblaði, sem Viðskiptablaðið gaf út vegna 25 ára afmælis samtakanna.  

Árni Gunnarsson var formaður Samtaka ferðaþjónustunnar frá árinu 2008 til 2014. Hér svarar hann þremur spurningum:

Hvað stóð uppúr á þinni stjórnartíð?

Það voru gríðarlega miklir umbrotatímar á árunum 2008 til 2014, þau ár sem ég var formaður stjórnar SAF. Tímabilið hófst með hruni fjármálakerfisins haustið 2008 þar sem bregðast þurfti við með neyðarfundum með endursöluaðlum um heim allan til að skapa fullvissu um að óhætt væri að senda ferðamenn til landsins, hér væri hægt að fá allar nauðsynjavörur og þjónustu.

Einungis rúmlega ári seinna, vorið 2010, varð gosið í Eyjafjallajökli sem í upphafi lokaði allri flugumferð í stórum hluta Evrópu en hafði áhrif vikum saman á meðan á því stóð. Í framhaldi af því var farið í öflugt markaðsátak í samvinnu stjórnvalda og atvinnugreinarinnar til að láta vita að hingað væri óhætt að koma og tókst það með afbrigðum vel.

Í lok tímabilsins, þ.e. árið 2013 var ferðaþjónustan í fyrsta skipti orðin stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar, engin önnur atvinnugrein hafði skapað jafnmörg störf á tímabilinu og fjölda erlendra ferðamanna sem sótti landið heim hafði tvöfaldast úr tæplega 500 þús farþegum árið 2008 í tæplega milljón árið 2014.

Hver er þín sýn á ferðaþjónustuna í dag?

Ferðaþjónustan á Íslandi stendur styrkari fótum en nokkru sinni fyrr. Fjárfesting í framboði á gæðaþjónustu, hvort sem er í gistingu eða afþreyingu hefur verið mikil og þrátt fyrir gríðarlega fjölgun ferðamanna hefur okkur tekist að halda langflestum ferðamönnunum ánægðum og það sem er ekki síður mikilvægt, sátt heimamanna, þ.e íbúa Íslands við ferðaþjónustuna er mikil.

Áskoranir eru þó eðlilega margar, þannig hefur enn ekki tekist að stýra fjölda ferðamanna um helstu áfangastaði á álagstímum eins og best verður kosið með tilheyrandi álagi fyrir viðkomandi stað og neikvæðri upplifun ferðamannsins. Hátt vaxtastig, gengissveiflur og óstöðugur atvinnumarkaður eru jafnframt þættir sem skapa miklar áskoranir fyrir greinina.

Hvernig sérðu ferðaþjónustuna þróast?

Mikilvægt er að áfram verði lögð áhersla á sjálfbærni atvinnugreinarinnar í sem víðustum skilningi. Orkuskipti eru mér þar hugleikin, hér verði hægt að bjóða uppá akstur af öllum tegundum, hvort sem er bílaleigubílar eða hópbílar, drifna áfram af umhverfisvænum orkugjöfum framleiddum á Íslandi.

Flug um landið verði jafnframt drifið áfram af rafeldsneyti, öll gisting verði umhverfisvottuð. Stýring áfangastaða verði til fyrirmyndar þannig að góð notkun innviða sé fyrir hendi og upplifun gesta í forgrunni. Einungis með slíkum áherslum verður hægt að tryggja að ferðaþjónustan verði til framtíðar sú grunnstoð í íslensku samfélagi sem hún er nú.

Fjallað er um málið afmælisblaði Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka í 25 ár.