Árni Sigurðsson, forstjóri Marels, segir það vera markmið bæði Marel og JBT að greiða skuldirnar niður hratt, spurður um hvort hann hafi áhyggjur af skuldsetningu hins sameinaða félags, m. a. vegna þess hvernig yfirtökutilboðið er fjármagnað.
„Það sem JBT hefur sagt er að ef við miðum við að þetta sé að klárast í lok árs er áætlað að nettó vaxtaberandi skuldir sem margfeldi af EBITDA verði undir 3,5x miðað við núverandi plön, sem gætu auðvitað breyst með ytra umhverfinu, en svo ætti sameinað félag að vera mjög sterkt með gott sjóðstreymismódel til að lækka skuldsetninguna eins fljótt og auðið er með það að markmiði að koma skuldahlutfalli undir þrjá árið 2025,“ segir Árni í samtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku.
Samkvæmt skráningarlýsingu JBT í tengslum við yfirtökutilboð félagsins í allt hlutafé Marels er heildarkostnaður við yfirtökuna í kringum 1,9 milljarða evra, sem samsvarar um 285 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.
Samkvæmt gögnunum er áætlað að skuldsetning JBT aukist um 1,5 milljarða evra, eða um 225 milljarða króna, til að fjármagna kaupin en í lok mars skuldaði JBT um 652,5 milljónir Bandaríkjadala og Marel 800,9 milljónir evra. Sameiginleg skuld félaganna tveggja fyrir yfirtökuna á gengi dagsins er því um 310 milljarðar króna.
„Við höfum verið að hugsa þetta mjög vandlega. Ég heyri að JBT er að reyna að finna það jafnvægi þannig að skuldsetningin verði ekki of há á sama tíma og það er ekki verið að þynna út núverandi hluthafa þeirra of mikið út,“ sagði Árni í samtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku.
Spurður hvernig sviðsmyndin verði hjá Marel ef hluthafar hafni tilboðinu segir Árni að stefna Marels um að sækja fram verði óbreytt.
„Stefna Marels er mjög skýr og hún breytist ekki hvort sem verður af sameiningu eða ekki. Það er kostur. Marel hefur síðustu ár náð að útvíkka viðskiptamódel sitt og ná þeirri stærð og umsvifum að það er ekki lífsnauðsynlegt fyrir okkur að fara í yfirtökur eða eitthvað slíkt, þar sem við höfum byggt upp það sterkt félag. Möguleg sameining við JBT hraðar sýn okkar að umbreyta matvælavinnslu í heiminum í samstarfi við viðskiptavini okkar,“ segir Árni.