Eftir töluverðar tafir á uppbyggingu nýs íbúðarhúsnæðis á fyrri hluta kjörtímabilsins eru bæjaryfirvöld í Hafnarfirði stórhuga fyrir næstu ár. Gera áætlanir bæjarfélagsins ráð fyrir að tæplega þrjú þúsund nýjar íbúðir bætist við á næstu fjórum árum og að íbúum fjölgi um allt að 7.500 á tímabilinu. Um þrjátíu þúsund manns búa í Hafnarfirði í dag.
„Það má sannarlega segja að við séum að vinna upp lægðina sem við lentum í," segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, áður en hún útskýrir nánar hvers vegna lítið hefur verið um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í bænum undanfarin ár.
„Í blálok síðasta kjörtímabils urðum við fyrir miklu höggi þegar framkvæmdaleyfi á flutningi Lyklafellslínu 1, sem eru raflínur sem voru yfir stærstu uppbyggingarhverfum bæjarins í Skarðshlíð og Hamranesi, var fellt úr gildi. Það hafði tekið talsverðan tíma að fá framkvæmdaleyfi frá nágranna-sveitarfélögum og ýmislegt annað, en þegar loks stefndi í að framkvæmdir gætu hafist var veiting framkvæmdaleyfisins kærð af Hraunavinum og Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands."
Þegar ofangreind kæra var tekin fyrir hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst nefndin að þeirri niðurstöðu að framkvæmdaleyfið sem hafði verið gefið út til Landsnets skyldi fellt úr gildi. „Þetta var mikið áfall því við höfðum reiknað með að halda áfram úthlutunum á lóðum á árinu 2018 og í kjölfarið myndu framkvæmdir hefjast. Er framkvæmdaleyfið var fellt niður fór allt í baklás og olli það því að uppbyggingin í Skarðshlíð og Hamranesi tafðist í um u.þ.b. tvö ár."
Þetta hafi orðið til þess að íbúum Hafnarfjarðar fjölgaði ekki um tíma og meira að segja farið fækkandi eftir að Covid-19 skall á og erlent vinnuafl fluttist af landi brott. „Þetta hafði einnig áhrif á húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu, því við vorum sannarlega með stór plön. Eftir viðræður við Landsnet náðist samkomulag um að línurnar yrðu fluttar bráðabirgðaflutningi frá þessum svæðum. Það gerði okkur kleift að setja uppbygginguna í gang á nýjan leik."
Ný hverfi reist og byggð þétt víða
Rósa segir sölu á lóðum í Skarðshlíð hafa hafist aftur árið 2019 og eftirspurn eftir lóðunum verið gríðarlega mikil og færri fengið úthlutað en vildu. Lóðum í Hamranesi hafi svo verið úthlutað í fyrra og eftirspurnin einnig reynst veruleg. „Áætlað er að ríflega 1.600 íbúðir rísi í Hamranesi og alls verði um 450 íbúðir í Skarðshlíð. Íbúðir í fjölbýlishúsunum í Skarðshlíð hafa selst mjög hratt þegar þær hafa verið að koma á markað jafnt og þétt undanfarna mánuði, enda mjög fjölskylduvænt hverfi í fallegu umhverfi. Nýjar íbúðir í hverfinu eru enn að koma til sölu og brátt hefst sala á íbúðunum í Hamranesi. "
Auk þess standi til að byggja íbúðarhúsnæði á þéttingarreitum víða í Hafnarfirði. „Á Hjallabraut eru í byggingu rað- og einbýlishús. Á Lækjargötu, svokölluðum Dvergsreit, eru um 20 íbúðir í byggingu. Þá eru einnig framkvæmdir á fullri ferð á þéttingarreitum í Setbergi, Hjallabraut og Hrauntungu," segir Rósa. Að auki sé verið að leggja lokahönd á skipulagsvinnu fleiri þéttingarreita og að þeirri vinnu lokinni hefjist framkvæmdir eins fljótt og hægt er.
Stærsta þéttingarverkefnið sé hins vegar hverfi sem kallist Hraun-vestur. „Umræddur reitur nær frá Reykjanesbrautinni, þar sem skrifstofur Actavis standa, og nær alveg að svæðinu þar sem Tækniskólinn er til húsa í dag. Á þessu svæði er í dag aðallega atvinnuhúsnæði. Nú er hins vegar búið að breyta aðalskipulagi sem í kjölfarið gerir ráð fyrir miklum breytingum og töluverðri íbúðauppbyggingu á svæðinu. Við væntum þess að framkvæmdir á svæðinu hefjist síðar á árinu."
Áætlað sé að eftir 2-3 ár verði um 500 íbúðir í fjölbýli tilbúnar á svæðinu en þegar framkvæmdum verði endanlega lokið sé gert ráð fyrir að um 2.500 íbúðir hafi verið reistar. „Þetta er spennandi svæði sem er mjög miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og stutt er í stofnbrautir og almenningssamgöngur. Því líta margir hýru augu til þessa svæðis. Skipulagið gerir ráð fyrir að neðstu hæðir margra fjölbýlishúsanna muni hýsa ýmsa þjónustu meðan hæðirnar fyrir ofan verða íbúðir. Þetta verður blandað og skemmtilegt hverfi," segir Rósa.
Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .