Starfsmenn kínverska eignarstýringarfyrirtækisins Evergrande hafa verið handteknir af lögreglunni í kínversku borginni Shenzhen. Fyrirtækið hefur verið undir smásjá kínverskra yfirvalda vegna kreppu á kínverskum fasteignamarkaði sem hófst fyrir tveimur árum.
Í færslu sem lögreglan birti á samfélagsmiðlum hvetur hún almenning til að tilkynna öll slík mál til lögreglunnar ef grunur liggur uppi um svik.
„Nýlega gripu almannaöryggisstofnanir til refsiaðgerða gegn yfirmönnum og öðrum grunuðum glæpamönnum hjá Evergrande Financial Wealth Management Co.,“ sagði lögreglan í Nanshan hverfi Shenzhen á laugardaginn.
Engar upplýsingar hafa verið veittar um það hverjir eða hversu margir eru í haldi lögreglu. Það er einnig óljóst hvaða ákærur þeir einstaklingar gætu átt yfir höfði sér. Lögreglan segir aðeins að málið sé enn í rannsókn og að fjárfestar gætu lagt fram kærur til yfirvalda.
Kínverska fjármálaeftirlitið sendi frá sér tilkynningu á föstudaginn þar sem fram kemur að eignir og skuldir Evergrande Life Assurance verða færðar yfir til Haigang Life Insurance Co. Ltd.
Hlutabréf Evergrande stóðu í stað í dag en hrundu um tæp 25% í síðustu viku. Evergrande var eitt sinn eitt af stærstu fyrirtækjum Kína og námu skuldir fyrirtækisins 300 milljörðum dala þegar mesta stækkun átti sér stað.
Síðan 2020 hafa kínversk stjórnvöld gert það sífellt erfiðara fyrir fjárfesta innan fasteignageirans að fá aðgang að lánsfé. Aðrir kínverskir fasteignasalar á borð við Country Garden og Sino-Ocean hafa einnig átt í erfiðleikum með skuldir sínar og óttast sérfræðingar að kreppan í kínverska fasteignageiranum gæti smitast út á alþjóðlega fjármálamarkaði.