Líflegur dagur var í Kauphöllinni í dag. Heildarvelta á aðalmarkaði var 7,2 milljarða krónur. Af 21 félagi voru 14 félög græn í viðskiptum dagsins en fimm voru rauð.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,44% en hún hefur lækkað um 4,16% á síðastliðnum mánuði. Hlutabréf Síldarvinnslunnar (SVN) fóru upp um 5,04% í 663 milljóna króna viðskiptum og hækkuðu þar með mest í dag. Bréfin tóku að hækka þegar útgerðarfélagið tilkynnti um kaup á 34,2% hlut í norska laxeldisfyrirtækinu Artica Fish Holding AS fyrir 14,8 milljarða króna. Gengið er nú í 100 krónum á hlut.

Sjá einnig: SVN kaupir í Artica Fish fyrir 15 milljarða

Mikil viðskipti voru með hlutabréf Festi, gengi bréfanna hækkaði um 0,97% í 1,4 milljarða króna viðskiptum. Viðskipti með tæplega 1% hlut í félaginu fóru í gegn skömmu eftir opnun Kauphallarinnar í morgun. Kaupverðið nam 659,2 milljónum króna og gengið í viðskiptunum var 206 krónur á hlut. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að tveir hlutabréfasjóðir hafi verið á söluhliðinni en tekið var fram að hvorugur þeirra sé að flýja félagið. Mikil ólga hefur verið í kringum Festi en félagið tilkynnti á fimmtudaginn í síðustu viku að Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, hafi sagt starfi sínu lausu. Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að Eggerti hafi verið sagt upp störfum. Kauphöllin er nú þegar með málið til skoðunar.

Sjá einnig: Kauphöllin með mál Festi til skoðunar

Hlutabréf Icelandair Group lækkuðu mest í dag eða um 1,54% í 189 milljóna króna viðskiptum. Gengið er nú í 1,54 krónum á hlut en það hefur lækkað um 11,21% á síðastliðnum mánuði.

Mesta veltan var með bréf Arion banka en hún nam 1,5 milljörðum króna en gengi bréfanna er nú 162 krónur á hlut og hefur hækkað um 0,93% á síðastliðnum mánuði.